Þrír komu til greina sem Hannibal Lecter

derec jakobiBreski leikarinn Derek Jacobi hefur upplýst að bæði hann og Daniel Day-Lewis hafi komið til greina í hlutverk mannætunnar Hannibal Lecter í myndinni The Silence of the Lambs, sem Anthony Hopkins lék svo eftirminnilega. Hopkins fékk Óskarsverðlaunin fyrir túlkun sína.

Upplýsingar um þetta koma fram í sjálfsævisögu Jacobi, As Luck Would Have It, en hann segir þar að þeir sem sáu um ráðningar á leikurum í myndina, sem er eftir leikstjórann Jonathan Demme, og er frá árinu 1991, og fjallar um ungan alríkislögreglumann sem leitar ráða hjá geðsjúkum fjöldamorðingja sem situr í fangelsi, til að hjálpa sér að finna raðmorðingja, hafi undir lokin verið búnir að þrengja valið niður í þrjá leikara sem mögulega í hlutverk Lecter.

„Ég var einn þessara þriggja sem komu til greina fyrir Hannibal Lecter í The Silence of the Lambs: hinir voru Daniel Day-Lewis og Tony Hopkins,“ segir Jacobi. „Þeir voru búnir að ákveða að fá breskan leikara í hlutverkið – ég er ekki viss um hvað það segir um okkur [Breta].  Enginn veit hvernig það hefði orðið ef ég hefði leikið hlutverkið, en ég hefði túlkað illsku á annan máta.“

„Tony er með harðari augu en ég hef. Hann var frábær.“

Silence of the Lambs gerði stórstjörnu úr Hopkins en áður en hann lék í myndinni, sem byggð var á skáldsögu Thomas Harris frá 1988, hafði hann aldrei verið tilnefndur til Óskarsverðlauna. Síðan hann vann Óskarinn árið 1992 hefur hann oft þótt líklegur. Hann hefur fengið þrjár tilnefningar til verðlaunanna síðan þá, árið 1994 fyrir The Remains of the Day og árið 1998 fyrir Nixon og Amistad. 

Eins og minnst er á í grein The Guardian, er þó ekki samasem merki á milli þess að leika Hannibal Lecter og að fá Óskarsverðlaunin. Rómuð frammistaða Brian Cox í hlutverki Lecters í mynd Michael Mann frá árinu 1986, Manhunter, sem byggð var á fyrri bók Harris, Red Dragon, hlaut ekki náð fyrir augum Óskarsakademíunnar.