Bráðum hægt að leigja Pulp Fiction á Facebook

Miramax kvikmyndafyrirtækið tilkynnti fyrr í vikunni á bloggsíðu að það ætlaði í samstarfi við Facebook samskiptavefinn, að setja í gang Miramax Experience, sem er viðbót við Facebook ( app ) sem mun gefa Facebook notendum um allan heim tækifæri til að horfa á búta úr kvikmyndum og heilar kvikmyndir sem Miramax hefur framleitt.

Þetta er metnaðarfyllsta áætlun Hollywood kvikmyndavers á Facebook hingað til. Til að byrja með mun viðbótin bjóða fólki að leigja myndir video-on-demand fyrir 30 Facebook Credits, sem er jafnvirði þriggja Bandaríkjadala. Miramax segir að til lengri tíma litið sé það stefna fyrirtækisins að selja kvikmyndir fyrir notendur til að hlaða niður og eiga, þannig að hægt sé að spila þær á hvaða formi sem er.

20 myndir eru í boði nú til að byrja með, þar á meðal Chicago, Gangs of New York, Good Will Hunting og Pulp Fiction.

Kvikmyndaverið vann með Ooyala og AllDigital að forritun viðbótarinnar, og tók verkið átta vikur.
Miramax segir að meira en 50 milljón Facebook notendur minnist á einhverja Miramax mynd í notendaprófíl sínum, eigi einhver samskipti við Miramax vefsíðu eða hafi líkað einhverja aðdáendasíðu kvikmyndar eða leikara hjá Miramax.

Miramax er ekki fyrsta kvikmyndafyrirtækið til að bjóða kvikmyndir sínar á Facebook. Í síðustu viku tilkynnti Universal að það myndi bjóða mynd Coen bræðra, The Big Lebowski, sem sína fyrstu mynd á Facebook. Í mars byrjaði Warner Bros einnig að bjóða fólki að horfa á bíómyndir á samskiptasíðunni. Þar á meðal The Dark Knight, tvær Harry Potter myndir og Inception. Allar myndir allra þessara fyrirtækja er hægt að horfa á í 48 klukkutíma eftir að mynd er leigð, og þær kosta allar 3 dali.