Brand vinsælli en Brand

Sú skemmtilega staða var uppi í Bandaríkjunum nú fyrir helgi, að breski kvikmyndaleikarinn Russel Brand keppti um hylli áhorfenda við sjálfan sig, en leikarinn leikur aðalhlutverkið í gamanmyndinni Arthur, sem er endurgerð á samnefndri mynd með Dudley Moore, og talar einnig fyrir Páskakanínuna í fjölskyldumyndinni Hop, sem var reyndar frumsýnd fyrir viku síðan og fór þá beint á topp aðsóknarlistans.

Það er skemmst frá því að segja að Russel í Hop, sigraði Russel í Arthur. Hop var aðsóknarmesta mynd helgarinnar, aðra helgina í röð, með 21,6 milljónir Bandaríkjadala í aðgangseyri en Arthur lenti í öðru sæti með 12,6 milljónir dala í aðgangseyri.

Fyrir þá sem vilja vita meira um Arthur þá er viðtal í nýjasta tölublaði Mynda mánaðarins við aðalleikarana, þau Russel Brand og Helen Mirren, og það má lesa hér á kvikmyndir.is með því að smella hér.

Í þriðja sæti lenti svo spennumyndin Hanna, sem þénaði 12,3 milljónir dala. Fjölskyldumyndin Soul Surfer, sem er sannsöguleg mynd um unga brimbrettastúlku sem missir annan handlegginn í hákarlskjaft, lenti í fjórða sæti með 11,1 milljón dala.

Insidious situr svo í fimmta sæti eftir helgina með 9,7 milljónir dala og gamanmyndin Your Highness sem var fjórða nýja mynd helgarinnar, tók inn 9,5 milljónir í sjötta sæti, en myndin sem er með Natalie Portman og James Franco í aðalhlutverkum, var einnig frumsýnd hér á landi um helgina. Vísindatryllirinn Source Code lenti svo í 7. sæti með 9 milljónir dala.

Limitless varð síðan í 8. sæti með 5,6 milljónir, Diary of a Wimpy Kid: Rodrick Rules var í 9. sæti með 4,8 milljón dali í tekjur og The Lincoln Lawyer varð í því tíunda með 4,6 milljón dali.