Bond til sölu?

Forsvarsmenn MGM Holdings Inc. hyggjast selja kvikmyndaver félagsins og með því njósnarann hennar hátignar, James Bond. Frá því er meðal annars greint á vef Wall Street Journal og segir þar að vonast sé til með sölunni að kvikmyndasafn versins muni vekja athygli streymisþjónusta. MGM inniheldur alls rúmlega fjögur þúsund titla og sautján þúsund klukkustundir af sjónvarpsefni.

Hermt er að markaðsvirði kvikmyndaversins sé um 5,5 milljarðar dala en myndabálkurinn um James Bond er stærsta eign MGM, sem félagið á með Danjaq LLC. Þetta er þó ekki fyrsta skiptið sem MGM er til sölu en hefur lítið bólað á niðurstöðum sökum þess að fjárfestar telja verðið of hátt.

Óhætt er að segja að MGM hafi fundið fyrir gífurlegu tekjutapi þetta árið, líkt og flest kvikmyndaver, og þá ekki síst vegna 25. kvikmyndarinnar um Bond, No Time to Die. Upphaflega stóð til að frumsýna myndina í apríl á þessu ári en ákveðið var að fresta því eftir að COVID-19 skall á heimsbyggðina.

Þá var ákveðið að myndin yrði frumsýnd þann 12. nóvember áður því var breytt í 2. apríl 2021.