Eins og flestir vita nú þegar mun Pierce Brosnan ekki gera aðra James Bond mynd eins og hann hafði upprunalega ætlað sér. Planið var að gera eina lokamynd eftir Die Another Day en að lokum sagði hann að áhuginn hafi minnkað. Í nýlegu viðtali var hann spurður um hvern hann myndi vilja sjá taka við af hlutverkinu og svaraði hann einfaldlega: Colin Farrell.
Búið er að birta margs konar slúður undanfarið um að Farrell ætti möguleika á því að leika rulluna og voru margir farnir að spá góðum hlutum fyrir hann með seríuna. En svo vill til að Colin hafði enga hugmynd um þetta og sagði hann við LatinoReview, meðan hann var að kynna Alexander, að hann hefur ekki minnsta áhuga að leika Bond
Aðstandendur 007 myndanna snéru einnig að Julian McMahon, sem eflaust einhverjir ættu að þekkja úr sjónvarpsþáttunum Nip/Tuck, en hann afþakkaði líka.
Leitin heldur víst áfram.
Svo eru búnar að berast uppfærslur um nýjustu Harry Potter myndina, en áður fyrr kom hérna frétt þar sem stóð að Jarvis Cocker væri valinn fyrir að sjá um stefið í myndinni, en því miður er búið að aflýsa því og mun Patrick Doyle fá verkefnið í staðinn.
Cocker var upphaflega fremstur í valinu en á endanum vildi leikstjórinn Mike Newell fá gamla kunningja sinn á svæðið. Doyle hefur séð um tónlistina í myndum á borð við Carlito’s Way, Donnie Brasco (sem Newell leikstýrði), Gosford Park og Secondhand Lions svo aðeins einhverjar séu nefndar. Ég leyfi ykkur að dæma um hvort þetta lofi góðu eða ekki. Annars er spurning hvort maður eigi eftir að sakna gamla snillingsins John Williams.

