Bond mynd nr. 25 er á döfinni og til stendur að frumsýna hana 8. apríl árið 2020. Allt frá 1962 hefur þessi njósnari á vegum hennar hátignar trekkt að og haldið dampi þrátt fyrir miklar þjóðfélagslegar breytingar, byltingu í kynjamálum og mikinn uppgang pólitískrar rétthugsunar. Einhvern veginn er alltaf hægt að laga James Bond að samtímanum.
Sex leikarar hafa túlkað hann og flestir kvikmyndaunnendur eiga sér sinn uppáhalds Bond. Minn verður alltaf Roger Moore en líklega er það vegna þess að hann var sá fyrsti sem ég sá í hlutverkinu. Eftir að hafa komið fram í kvikmyndum í 57 ár hefur landslagið breyst töluvert; kalda stríðið var í fullu gangi þegar Bond byrjaði en mikill uppgangur í tækniframförum og upprisa hryðjuverkasella hafa heldur betur breytt ævintýrum njósnarans í gegnum tíðina. Karlrembutaktar persónunnar voru eitt sinn hans aðalsmerki sem og óskeikulleiki, en Bond sem karakter hefur einnig tekið miklum breytingum og aðlagast nýjum tíma.
Það breytir því þó ekki að Bond myndirnar eru tímalaus skemmtun og þó þær eldist misvel er alltaf hægt að setja þær í tímalegt samhengi og njóta til fulls. Það er til marks um mikil gæði þegar allar 24 myndirnar hafa eitthvað til síns ágætis og engin þeirra er alger skellur.
Vafalaust renna þær svolítið saman í hugum margra og þá er gaman að taka smá maraþon og rifja þær upp…og raða þeim niður eftir gæðum.
Listi sem þessi er hugsaður sem afþreyingarlestur og taka skal skýrt fram að er eingöngu skoðun eins rýnis.
Bond: Versti til besti
24. Moonraker (1979)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Hugo Drax (Michael Lonsdale)
Bond stúlka: Holly Goodhead (Lois Chiles)
„Look after Mr. Bond. See that some harm comes to him“ – Hugo Drax
James Bond rannsakar þjófnað á geimskutlu. Í leiðinni kemst hann á snoðir um víðfemt ráðabrugg sem felur í sér þjóðarmorð á heimsvísu.
Bond myndirnar voru duglegar að fylgja tíðarandanum og framleiðendur voru enn með stjörnur í augunum eftir gríðarlega velgengni „Star Wars“ (1977) og ákveðið var að henda breska ofurnjósnaranum út í geiminn. Framan af er „Moonraker“ ágætis ræma og Moore, sem hér var að leika Bond í fjórða skiptið, gerir góða hluti en þegar kemur að lokasprettinum er öllu hent út í buskann og vitleysisgangur tekur við í öllum skilningi. Geimbardaginn kann að vera vel sviðsettur og mikið var lagt í alls kyns módelgerð en hann er að öllu leyti ótrúverðugur og algerlega úr takti við allt það góða sem Bond myndirnar höfðu fært áhorfendum fram að því. Einnig er slæmt að sjá hvernig farið er með karakterinn „Jaws“ (manninn með stáltennurnar) en sá átti góða innkomu í „The Spy Who Loved Me“ (sem er töluvert ofar á listanum) og var ógnandi þar en er breytt í hálfgerðan trúð hér.
Þó svo að góða hluti er að finna í „Moonraker“, sér í lagi magnað atriði þegar Bond er sjáanlega í miklu uppnámi eftir að hafa verið í bráðri lífshættu, þá er ansi auðvelt að henda henni í síðasta sætið yfir James Bond myndirnar.
Fróðleiksmoli: „Moonraker“ ein síns liðs kostaði meira í framleiðslu en fyrstu sex myndirnar um James Bond.
23. Die Another Day (2002)
Bond: Pierce Brosnan
Illmenni: Gustav Graves (Toby Stephens)
Bond stúlka: Jinx Johnson (Halle Berry)
„Well, it seems you‘ve become useful again“ – M
James Bond reynir að komast að tengslum milli demantamógúls (sem fann demantabirgðir sínar á Íslandi) og Norður kóresks hryðjuverkamanns sem er að fjármagna smíð hættulegs vopns.
Í fyrstu lítur út fyrir að þessi fertugsafmælis mynd seríunnar ætli að fara ótroðnar slóðir þegar Bond er handsamaður í byrjun myndarinnar og er ekki sleppt lausum fyrr en 14 mánuðum síðar. Í rauninni fer „Die Another Day“ ótroðnar slóðir í þeim skilningi að herlegheitin og yfirgangurinn er slíkur að áhorfandinn ranghvolfir augunum í stað þess að dragast inn í atburðarrásina. Tæknibrellurnar eru m.a.s. ferlega lélegar á köflum og sýna enn fremur fram á fáránlegheitin í ævintýrum Bonds í þetta sinn.
Plottið er þunnt, samtölin eru yfirborðskennd og flöt, hasaratriðin jaðra við að vera yfirnáttúruleg og leikur í slappari kantinum (Berry ósannfærandi sem útsendari NSA og Stephens frekar yfirgengilegur sem vondi kallinn). Leikstjórinn Lee Tamahori („Once Were Warriors“) færir myndinni frekar þreytandi sjónrænt flæði (slo-mow senur upp úr þurru í miðjum hasar og slíkt) og loks er hún alltof löng.
Það sem bjargar henni fyrir horn er að Brosnan er ágætur hér, mýmargar góðar tilvísanir er að finna í eldri Bond myndir og gaman að „spotta“ þær og íslenska landslagið stendur ávallt fyrir sínu.
Fróðleiksmoli: Q er hér leikinn af John Cleese en Desmond Llewelyn lék hann alls í 17 myndum. Llewelyn lést skömmu eftir frumsýningu „The World is Not Enough“ (1999).
22. Tomorrow Never Dies (1997)
Bond: Pierce Brosnan
Illmenni: Elliot Carver (Jonathan Pryce)
Bond stúlka: Wai Lin (Michelle Yeoh)
„Never argue with a woman. They‘re always right“ – Bond
James Bond hyggst stöðva framgöngu fjölmiðlamógúls sem vill koma af stað stríði á milli Kína og Bretlands í von um að vera fyrstur með fréttirnar.
Brosnan átti fína innkomu í „GoldenEye“ og er í sjálfu sér ágætur hér en myndin svíkur hann í staðinn. Hún fremur höfuðsyndina og verður helst til of langdregin og hasaratriðin eru fremur tilkomulítil á sama tíma og þau eru afskaplega hávær og teygð á langinn. Bond stúlkan er vissulega mikið hörkutól en er afskaplega einsleit og Aðþrengda eiginkonan sjálf Teri Hatcher þjónar engum tilgangi nema að vera pínu augnakonfekt. Illmennið Carver er sæmilega leikinn af Pryce en línurnar sem hann fær að vinna með eru frekar pínlegar og í raun eru öll samtölin hér svo yfirborðskennd að áhorfandinn fær kjánahroll. Einnig fær gæðaleikkonan Judi Dench sama og ekkert að gera sem „M“.
Ljósu punktarnir eru ágætis frammistaða hjá Brosnan og fjarstýrði bíllinn sem Bond leikur sér með í einu löngu og frekar ótrúlegu hasaratriði.
Fróðleiksmoli: Flesta dauðdaga er að finna í þessari Bond mynd; 197 láta lífið.
21. You Only Live Twice (1967)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Ernst Stavro Blofeld (Donald Pleasence)
Bond stúlka: Aki (Akiko Wakabayashi)
„Oh the things I do for England“ – Bond
James Bond tekur saman höndum við japönsku leyniþjónustuna og reynir að hafa upp á þeim sem er að ræna geimskutlum og eggja stórveldin í stríð.
Það er eitthvað við Bond og geiminn sem er ekki að virka. Samt er plottið ágætt og mikið í myndina lagt. Allt Pinewood kvikmyndaverið var notað til að byggja höfuðstöðvar illmennisins og ótrúlegt magn áhættuleikara setur á svið mögnuð hasaratriði í lokasenunum sem enn í dag líta ágætlega út. Náttúrufegurð Japans nýtur sín einnig vel í magnaðri kvikmyndatöku Freddie Young („Lawrence of Arabia“, „Dr. Zhivago“). En „You Only Live Twice“ hefur einhvern hægan og frekar letjulegan stíganda og frekar áhugalausan Connery sem draga myndina töluvert niður.
Myndin er þekkt fyrir að vera sú fyrsta sem gerði Bond að meiri ofurnjósnara en raunverulegri manneskju og þyrlan sem „Q“ færir honum sýnir ágætlega í hvað stefndi. Svo held ég að Bond hafi aldrei verið í meira karlrembulegu umhverfi og haft meiri undirlægjur sem föruneyti en hér. Hér sést líka fyrst í smettið á Blofeld en gæðaleikarinn Pleasence (sem fenginn var á síðustu stundu) var kolrangt val í hlutverkið enda leit höfuðpaur vondu samtakanna S.P.E.C.T.R.E. töluvert öðruvísi út næst.
Connery vildi hafa þetta síðustu Bond myndina sína en blessunarlega snéri hann aftur í hlutverkið.
Fróðleiksmoli: „You Only Live Twice“ er eina Bond myndin þar sem kappinn sest ekki bakvið stýrið á bíl. Hann er bara farþegi í þetta skiptið.
20. A View To A Kill (1985)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Max Zorin (Christopher Walken)
Bond stúlka: Stacey Sutton (Tanya Roberts)
„There‘s a fly in his soup!“ – Bond
James Bond kemst á snoðir frumkvöðuls sem hyggst einoka örflögumarkaðinn með því að leggja Kísildalinn í Kaliforníu í rúst.
Nú var Bond serían að stíga nokkur skref aftur á bak á allan hátt. Eftir að „For Your Eyes Only“ hafði rétt skútuna við eftir „Moonraker“ slysið og „Octopussy“ hélt dampi og vel það var 007 aftur að kljást við mikilmennskubrjálæðing af illa skrifuðu sortinni og með Bond stúlku sem helst mætti líkja við Barbie dúkku (og algerlega háð okkar manni með tilheyrandi „Oh James!“ öskrum). Svo er Moore orðinn allt of gamall í rulluna; hann slapp fyrir horn í síðustu myndinni en hér er það fulláberandi að áhættuleikararnir fá meira skjátíma en kappinn sjálfur.
Plottið er í raun ágætt og vísar m.a. í erfðarannsóknir sem skópu illmennið Zorin og hægri hönd hans (hina óviðjafnanlegu Grace Jones) og útskýrir það algjöra siðblindni hans. Svo eru hasaratriðin vel af hendi leyst; allt frá fallhlífarstökki á Eiffel turninum í París til lokauppgjörs á Golden Gate brúnni í San Francisco.
Hinn frábæri Walken getur þó lítið gert í hlutverki sínu þar sem Zorin er afskaplega litlaus persóna en Jones hefur góða nærveru og mjólkar eins mikið og hægt er úr sinni rullu. Fínir aukaleikarar eins og Patrick Macnee („The Avengers“) og Patrick Bauchau („Phenomena“) hjálpa til en heilt yfir tyllir „A View To A Kill“ sér í neðri helminginn þegar serían er tekin saman.
Fantagott Bond lag þó hjá Duran Duran.
Fróðleiksmoli: Sagt er að Roger Moore hafi endanlega sagt „Hingað og ekki lengra“ þegar hann komst að því að móðir Tanyu Roberts (Bond stúlkunnar Stacey Sutton) væri yngri en hann.
19. The Man With the Golden Gun (1974)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Francisco Scaramanga (Christopher Lee)
Bond stúlka: Mary Goodnight (Britt Ekland)
„Miss Anders…I didn‘t recognize you with your clothes on“ – Bond
James Bond er í sigtinu hjá dýrasta leigumorðingja sögunnar, Francisco Scaramanga. Á sama tíma reynir njósnarinn að koma höndum yfir nýja uppfinningu í sólarrafhlöðuvísindum sem selja á hæstbjóðanda.
Sem fyrr reynir Bond mynd að fylgja tíðarandanum og hér má finna mörg atriði sem taka innblástur frá „Enter The Dragon“ (1973) og öðrum eins bardagamyndum. Þau eru ágæt flest hver og Christopher Lee er gott val í hlutverk Scaramanga en „The Man With the Golden Gun“ er með slappari myndunum um njósnara hennar hátignar. Stemningsleysi, illa skrifuð samtöl og óvenju slæmir brandarar, hægur stígandi og einstaklega vitgrönn Bond stúlka draga úr skemmtanagildi annarrar myndar Moore í hlutverki 007.
Moore er fínn, Lee er frábær og sum hasaratriðin (þ.m.t. þegar Bond stekkur á bíl yfir ókláraða brú) eru mögnuð og því er myndinni ekki alls varnað.
Fróðleiksmoli: Leikkonan Maud Adams er í hlutverki Andru Anders, frillu Scaramanga, en níu árum síðar landaði hún hlutverki Bond stúlku í „Octopussy“ (1983).
18. Quantum of Solace (2008)
Bond: Daniel Craig
Illmenni: Dominic Greene (Mathieu Amalric)
Bond stúlka: Camille (Olga Kurylenko)
„I don‘t think the dead care about vengeance“ – Bond
James Bond kemst á snoðir um dularfull samtök sem virðast hafa gríðarleg völd og áhrif en enginn veit neitt um. Fyrsta mál á dagskrá er að stöðva athafnamanninn Dominic Greene sem reynir að sölsa undir sig helstu náttúruauðlind Bolivíu.
„Quantum of Solace“ er beint framhald af „Casino Royale“ (2006) og flókið plott þeirrar myndar heldur áfram hér og alltaf bætist eitthvað nýtt við. Flestir Bond unnendur geta líklega getið sér til um hvaða samtök það eru sem Bond er að eltast við en útúrdúrinn hér, eltingarleikur við Greene, er frekar óáhugavert innlegg og skúrkurinn er með þeim slappari. En hér eru það hasarasenurnar sem eru helsti dragbíturinn. Hinum nýja Bond þótti svipa eilítið til Jason Bourne í „Casino Royale“ og virðist markmiðið vera að toppa þann næsta yfirnáttúrulega njósnara. Handheld kvikmyndataka, gríðarlega hörð návígi og átök og ógnvænlegur hraði skapa hálfgerðan glundroða í hasarsenunum og Bond er næstum því ofurmannlegur í hvað hann þolir af barsmíðum. Allt þetta væri fyrirgefanlegra ef plottið væri gott en það er frekar rislítið.
Craig er fantagóður sem Bond og sýnir vel hve gott val hann var fyrir þessa endurræsingu á njósnara hennar hátignar. „Quantum of Solace“ náði engan veginn að fylgja eftir hinni stórgóðu „Casino Royale“ en næsta myndin, „Skyfall“ (2012), lagaði allt sem þessi klikkar á.
Fróðleiksmoli: Þrátt fyrir að vera stysta Bond myndin (106 mín) er nóg um hasar og „Quantum of Solace“ er eina Bond myndin sem inniheldur eltingaleik á fótum, bílaeltingaleik, eltingaleik á bátum og eltingaleik í loftinu.
17. Diamonds Are Forever (1971)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Ernst Stavro Blofeld (Charles Gray)
Bond stúlka: Tiffany Case (Jill St. John)
„Welcome to Hell, Blofeld“ – Bond
James Bond rannsakar víðfemt demantasmygl og allar leiðir liggja til Las Vegas. Ríkur en dularfullur viðskiptamaður, Blofeld og liðlegar gellur að nafni Bambi og Thumper eru á meðal þeirra sem verða á vegi Bond.
Eftir að „On Her Majesty‘s Secret Service“ (1969) klikkaði í miðasölu og var stráfelld af gagnrýnendum ákvað ástralinn George Lazenby að gefa ekki kost á sér aftur og framleiðendur punguðu út morðfjár til að fá Connery til baka. „Diamonds Are Forever“ tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið þar sem Bond mætir æfur af reiði til að gera út um Blofeld eftir að hann var ábyrgur fyrir dauða eiginkonu hans.
En það er bara byrjunaratriðið og svo er ekki minnst á fyrrum konu Bonds…og síðan birtist Blofeld bara aftur seinna í myndinni. Útúrdúrinn sem „On Her Majesty‘s Secret Service“ var þótti ekki vel heppnaður þar sem uppáhalds njósnari allra var helst til of mannlegur og veikburða og flottu tækin og tólin sem „Goldfinger“, „Thunderball“ og „You Only Live Twice“ kynntu til sögunnar voru fjarri góðu gamni. Því var gripið til hins gamla góða í „Diamonds Are Forever“ og Connery var sannarlega liður í að gera Bond aftur að fjárhagslega góðri myndaseríu.
Myndin hefur margt gott við sig; stemningin er flott í Las Vegas og hörkuflottur bílaeltingaleikur er hápunkturinn þar en tökuliðið fékk að stöðva alla traffík í þrjár nætur til að mynda allt. Lokahasarinn á olíuborpalli úti á sjó er mjög tilkomumikill, leigumorðingjarnir og elskhugarnir Mr. Kidd og Mr. Wint (Putter Smith og Bruce Glover) eru skemmtilega öðruvísi og Connery er svo sannarlega sprækari hér en í „You Only Live Twice“. Plottið er fínt en hér er greinilega reynt að draga úr alvarleikanum sem þótti helst til of mikill í myndinni á undan.
Fróðleiksmoli: Hér byrjar líka mjög svo óhefðbundin og frekar illskiljanleg ósamræming sem auðveldlega hefði verið hægt að koma í veg fyrir. Í fyrstu myndunum sást ekki framan í Blofeld en í „You Only Live Twice“ lék Donald Pleasence hlutverkið og þar var hann með stórt ör í andlitinu. Telly Savalas lék hann svo næst í „On Her Majesty‘s Secret Service“ en þar var ekkert ör í andlitinu og einnig var hann ekki með neina eyrnarsnepla. Svo í „Diamonds Are Forever“ leikur Charles Gray hlutverk Blofelds og þessi vel hærði leikari á lítið skylt útlitslega við skallaboltana Pleasence og Savalas með ekkert ör í andliti og þessa fínu eyrnarsnepla. Næst kemur Blofeld svo ekki til sögunnar fyrr en í „For Your Eyes Only“ heilum 10 árum síðar og þá aftur búinn að missa hárið.
16. Thunderball (1965)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Emilio Largo (Adolfo Celi)
Bond stúlka: Domino (Claudine Auger)
„Try to be a little less than your frivolous self, 007“ – Q
James Bond fer til Bahama eyja til að hafa upp á tveimur kjarnorkusprengjum sem útsendari S.P.E.C.T.R.E., Emilio Largo, hefur stolið og falið.
Skotin á methraða til að koma henni út fyrir jól árið 1965 en engu til sparað. Eftir gríðarlega velgengni „Dr. No“, „From Russia With Love“ og „Goldfinger“ var James Bond orðinn vinsælasta fyrirbæri jarðar og eftirvæntingin gríðarleg. „Goldfinger“ kynnti Aston Martin bifreiðina og byrjað var að græja Bond alls kyns tækjum og tólum sem kæmu að góðum notum og „Thunderball“ heldur því við og bætir um betur með ótrúlega vel útsettum og löngum neðansjávarbardaga sem kallaði á marga áhættuleikara og stórtækar senur sem kostuðu skildinginn.
„Thunderball“ er, má segja, myndin sem setti tóninn í stórtækum hasaratriðum og allar á eftir henni þurftu að reyna að toppa þá á undan. Hún er helst til of löng og frekar einfalt plott er lengi að komast á leiðarenda en fallegt umhverfi, sjarmerandi Connery, augnakonfekt í formi Claudia Auger og Luciana Paluzzi (sem illmennið Fiona) og mögnuð hasaratriði prýða myndina og sjá til þess að „Thunderball“ sé hin prýðilegasta skemmtun.
Fróðleiksmoli: „Thunderball“ er eina myndin sem sýnir alla 00 njósnarana samankomna á einum stað. Bond er sá síðasti sem mætir á svæðið og sest hann í eina lausa sætið; sem vill svo heppilega til að er það sjöunda frá vinstri.
15. Octopussy (1983)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Kamal Khan (Louis Jourdan)
Bond stúlka: Octopussy (Maud Adams)
„You have a nasty habit of surviving“ – Kamal Khan
Falsað Fabergé egg og dauði 009 leiða 007 á snoðir smyglhrings sem stýrt er af hinni dularfullu Octopussy. Bond kemst þó að því að stærri öfl eru á bak við atburðarrásina og markmiðið er vopnuð innrás á NATO ríkin.
Hér er Moore orðinn helst til of roskinn í hlutverkið en skiljanlega voru framleiðendur pínu órólegir með að ráðast í breytingar þar sem „Octopussy“ var í þeirri sérstöku aðstöðu að vera í samkeppni við aðra Bond mynd með engum öðrum en Sean Connery sjálfum. „Never Say Never Again“ (1983) var skellt í framleiðslu eftir mikið lagalegt vesen en hún var lausleg endurgerð á „Thunderball“ og skartaði því trompi að bjóða upp á upprunanlega Bond sem snéri aftur í hlutverkið eftir 12 ára hlé.
Þessi samkeppni gerði það að verkum að framleiðendur lögðu allt í sölurnar til að sjá til þess að „Octopussy“ byði upp á allt sem góð Bond mynd þyrfti að hafa. Plottið er fínt og kemur Bond alla leið til Indlands þar sem megnið af myndinni gerist. Atburðarrásin er hröð og hasaratriðin eru gríðarlega vel af hendi leyst (og sumt myndefni náðist með miklum fórnarkostnaði þar sem aðal áhættuleikarinn stórslasaðist við tökur). Framandi umhverfi Indlands færir myndinni mikinn ævintýrablæ í ætt við „Indiana Jones“ og álíka myndir en Bond hefur ávallt verið góður að samlagast vinsælum myndageirum þá stundina.
Sem fyrr eru tæki og tól Q að færa ofurnjósnarann enn fjær raunveruleikanum (en pínu var dregið úr því í myndinni á undan) og húmorinn er orðinn helst til of fyrirferðamikill og nær á stundum kjánalegum hæðum; sér í lagi er pínlegt að heyra Bond öskra eins og Tarzan þegar hann sveiflar sér í trjánum í skóginum.
Louis Jourdan er skemmtilegur sem illmennið Kamal Khan en Maud Adams er frekar tilþrifalítil sem hin dularfulla Octopussy. Moore stendur enn fyrir sínu og heilt yfir er „Octopussy“ hin fínasta afþreying fyrir Bond fíkla þó hún tylli sér ekki alveg í efri helminginn. Svo kom það á daginn að Moore trekkti meira að en Connery og fleiri Bond hliðarsögur hafa ekki litið dagsins ljós.
Fróðleiksmoli: Roger Moore fannst hann vera orðinn helst til of gamall fyrir hlutverkið og beið lengi með að samþykkja að leika í myndinni. Framleiðendur voru farnir að íhuga aðra leikara og næst komst bandaríski leikarinn James Brolin að landa hlutverki Bonds.
14. Dr. No (1962)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Dr. No (Joseph Wiseman)
Bond stúlka: Honey Ryder (Ursula Andress)
„Bond…James Bond“ – Bond
MI6 njósnarinn James Bond er sendur til Jamaica til að rannsaka dularfullt hvarf kollega síns. Þar kemst hann á snoðir um ráðabrugg Dr. No sem tilheyrir glæpasamtökunum S.P.E.C.T.R.E.
Fyrsta myndin um hinn goðsagnarkennda njósnara er þessi fremur lágstemmdi en vel skrifaði þriller sem, heilt yfir, tyllir sér þægilega um miðbikið þegar allar myndirnar eru teknar saman. Þemalagið (eftir Monty Norman) setur tóninn og hinn óviðjafnanlegi Sean Connery gefur manni gæsahúð þegar hann kynnir sig í fyrsta sinn með þekkta frasanum „Bond – James Bond“. Njósnari hennar hátignar er kynntur sem úrráðagóður útsendari sem þó á það til að grípa til hrottaskapar komi til þess.
Ursula Andress varð fyrirmynd allra Bond stúlkna og fáar, ef einhverjar, eiga jafn góða innkomu og hún. Honey Ryder var ekki aðeins sláandi falleg heldur einnig mjög úrráðagóð og góðu Bond stúlkurnar í framtíðinni voru gæddar þeim eiginleikum einnig (þó nokkrar þeirra hafi verið gerðar helst til of vitgrannar og háðar herra Bond). Eins og segir þá er „Dr. No“ fremur lágstemmd mynd, frekar hæg og lítið um hasar en fagurt umhverfi, fínt plott og geggjaður Connery sáu til þess að áhorfendur tóku vel í myndina og gátu hugsað sér meira.
Fróðleiksmoli: James Bond syngur „Under the Mango Tree“ þegar hann sér Honey Ryder bregða fyrir. Þetta er í eina skiptið sem Bond syngur í öllum myndunum um njósnarann.
13. Live and Let Die (1973)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Kananga/Mr. Big (Yaphet Kotto)
Bond stúlka: Solitaire (Jane Seymor)
„He always did have an inflated opinion of himself“ – Bond
James Bond er sendur til New Orleans til að hafa hendur í hári Mr. Big sem talið er að framleiði heróín í miklu magni. Mr. Big til ráðgjafar er spákonan Solitaire.
Frumraun Roger Moore sem Bond kom í þessari skemmtilegu samsuðu af Vúdú og „Blacksploitation“ en myndir á borð við „Shaft“ (1971) og framhöld hennar og „Super Fly“ (1972) voru að gera það gott í miðasölu. Þær myndir voru nær eingöngu með svarta leikara í burðarhlutverkum og „Live and Let Die“ vildi ná til þess markaðshóps sem gerði „Blacksploitation“ myndir að vinsælum varningi.
Plottið hér er ansi gott, New Orleans umhverfið gefur mikla stemningu og Roger Moore sýnir góða takta sem Bond. Yaphet Kotto er mjög ógnvænlegur í hlutverki illmennisins og Jane Seymor stendur sig vel í hlutverki Solitaire. En það eru hasarsenurnar sem taka heiðurinn hér og helst ber að nefna hreint ótrúlega langan og spennandi báta eltingarleik sem er gríðarlega vel útfærður. Bond myndirnar voru alltaf að verða stærri þegar kom að hasaratriðum og „Live and Let Die“ stendur vel að vígi þar.
Svo er Bond lagið með þeim betri en fyrrverandi Bítillinn Paul McCartney sá um það.
Fróðleiksmoli: Hér var ákveðið að prófa dálítið nýtt en Moore vildi víst ekki apa allt eftir Connery og pantar sér viskí án klaka á bar. Eftir þessa mislukkuðu tilraun hélt Bond sig við Vodka martini – hristan en ekki hrærðan.
12. GoldenEye (1995)
Bond: Pierce Brosnan
Illmenni: Alec Trevelyan (Sean Bean)
Bond stúlka: Natalya Simonova (Izabella Scorupco)
„We aim to please“ – Bond
James Bond tekur höndum saman við eina eftirlifandann hjá rússneskri rannsóknarstöð í von um að stöðva ránstilraun á öflugu kjarnorkuvopni. Höfuðpaurinn í öllu saman reynist vera fyrrum breskur njósnari sem talinn var látinn.
Frumraun Írans Pierce Brosnan var þessi sæmilega vel lukkaða endurkoma Bonds sem reyndi í senn að færa njósnarann nær nútímanum en halda í margt það gamla góða sem einkenndi myndaseríuna. Eftir fremur dræmar viðtökur „Licence to Kill“ (1989) leið óvenju langur tími milli mynda (6 ár) og um tíma var ákveðin óvissa um hvernig njósnarinn ætti að vera þegar kalda stríðið var liðið undir lok og hann meira og minna táknrænn fyrir fortíðina. Niðurstaðan var sú að Bond er enn sama karlremban og kvennagullið en hann mætir örlítið meiri mótspyrnu frá yfirboðara sínum (hinni stórgóðu Judi Dench sem „M“) og á vettvangi er hann ennþá úrræðabetri en aðrir.
Bond illmennin eru af tveimur gerðum. Annars vegar er gripið til þeirrar nýlundar að hafa höfuðpaurinn fyrrum breskan njósnara og vin Bonds sem telur sig meira og minna hrakinn í hryðjuverkastarfsemi vegna skorts á þakklæti frá eigin ríkisstjórn. Hins vegar er aðal drápsmaskína hans rússnesk ofurskutla að nafni Xenia Onatopp (Famke Janssen) sem kremur graða menn til dauða með ógnvænlegum fótastyrk sínum. Sem sagt; þokkaleg tilraun til að búa til raunverulegra illmenni en halda á í litríku og skoplegu persónurnar sem Bond þarf að lumbra á.
Heilt yfir er „GoldenEye“ hin fínasta afþreying sem þó eldist frekar illa. Brosnan er ágætur hér, Bean er ávallt viðkunnanlegur jafnvel sem hrotti og Robbie Coltrane er skemmtilegur sem rússneskur óvinur bresku ríkisstjórnarinnar. Hasarsenurnar eru mjög tilkomumiklar og sér í lagi alveg frábært byrjunaratriði sem fær hárin til að rísa.
Fróðleiksmoli: Sean Bean sóttist eftir hlutverki Bonds þegar leitin hófst að nýjum leikara fyrir „The Living Dayligths“ (1987) en Timothy Dalton varð fyrir valinu. Fyrst hann gat ekki landað hlutverki 007 fannst honum 006 vera það næst besta.
11. Spectre (2015)
Bond: Daniel Craig
Illmenni: Ernst Stavro Blofeld (Christoph Waltz)
Bond stúlka: Madeleine (Léa Seydoux)
„You are going to a place where there is no mercy“ – Madeleine
Bond fær dularfull skilaboð frá „M“ sem koma honum á snoðir um glæpasamtökin Spectre. Í leiðinni kemst hann að því hve veigamikinn þátt þau hafa spilað í síðustu verkefnum hans og höfuðpaurinn Blofeld á óuppgerðar sakir við njósnarann.
Plottið sem byrjar í „Casino Royale“ (2005) klárast hér og allar myndir Daniels Craig sem 007 tengjast mikið innbyrðis. Það gefur myndunum gott flæði og stíganda en „Spectre“ nær þó ekki sömu hæðum og „Skyfall“ (2012) þar sem söguþráðurinn er ekki eins grípandi og þéttur þrátt fyrir kærkomna endurkomu „gamla“ illmennisins Blofeld. Hasaratriðin eru sem fyrr fyrsta flokks en myndin er alltof löng (148 mín) og hægir of mikið á atburðarrásinni og tapar stemningunni fyrir vikið. Það er eins gott að vera vel að sér með hinar Craig myndirnar annars mun margt ekki komast vel til skila.
Enn er Craig fantagóður og blessunarlega á hann a.m.k. eina mynd eftir í viðbót. Seydoux sýnir góðan leik í hlutverki Bond stúlkunnar Madeleine og ljóst að hún er meira en bara stutt stoppistöð og hentar betur, ef eitthvað er, í þessum endurræsta Bond heimi. Helst er það hann Waltz sem veldur smá vonbrigðum sem Blofeld en þessi gæðaleikari er á leiðinni með að verða frekar einsleitur í túlkunum sínum á illa innrættum manneskjum.
Fróðleiksmoli: Framleiðendur „Spectre“ vildu frekar fá Gary Oldman í hlutverk Blofelds en leikarinn gat ekki skuldbundið sig í þá sex mánuði sem áætlaðir voru í tökur.
10. Goldfinger (1964)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Goldfinger (Gert Frobe)
Bond stúlka: Pussy Galore (Honor Blackman)
„No Mr. Bond. I expect you to die“ – Goldfinger
James Bond kemst á snoðir um smyglarann Goldfinger og bíræfið ráðabrugg hans um að ræna öllu gullinu í Fort Knox.
Þriðja myndin hans Connery sem Bond sló öll met á sínum tíma og þótti mjög nýstárleg þegar kom að hasaratriðum og herlegheitum. Hér er einnig að finna „prótó-týpuna“ að hinu litríka Bond illmenni og aðstoðarmanni hans; en hér er það banvæni brytinn Oddjob (Harold Sakata) með sinn hárbeitta hatt sem morðvopn. Hér fékk Bond Aston Martin bifreiðina sína sem innihélt ýmsa aukahluti og samanborið við hinar heldur alvarlegri „Dr. No“ og „From Russia With Love“ (1963) bjó „Goldfinger“ yfir mjög svo gráum húmor og frábærum línum sem urðu eins konar aðalsmerki njósnarans. Einnig voru nöfnin á Bond stúlkunum orðin ansi villt.
Allt þetta blandast vel saman og úr verður fyrsta flokks Bond skemmtun. Aðeins minni alvarleiki, aðeins villtara plott og ævintýralegri hasar en þetta er uppskriftin að hinum ómótstæðilega njósnara sem tók hinn almenna áhorfanda úr grámyglulegum hversdagsleikanum og gaf honum nasasjón af spennuþrunginni tilveru ofurnjósnara. Þó að nokkrar myndir í seríunni tækju alvarlegri stefnu varð hér til formúla að hinni sönnu Bond mynd sem flestar tóku mið af.
Connery er hér upp á sitt besta sem Bond en þýski leikarinn Frobe er nánast senuþjófur sem Goldfinger. Flestir unnendur myndaseríunnar telja hann vera besta illmennið af öllum þeim öttu kappi við Bond og óumdeilanlega á hann bestu línuna í myndinni. Leikstjórinn Guy Hamilton leikstýrði alls fjórum Bond myndum og hér sýður hann saman nokkur verulega vel gerð hasaratriði (á sínum tíma) en sérstaklega eru senurnar í Fort Knox mjög tilkomumiklar.
Fyrstu tvær myndirnar lögðu grunninn en þriðja myndin bjó til hina fullkomnu útgáfu af James Bond.
Fróðleiksmoli: „Goldfinger“ varð svo vinsæl um leið að hún fór í heimsetabók Guinness sem sú bíómynd sem græddi mest á stuttum tíma.
9. The Living Daylights (1987)
Bond: Timothy Dalton
Illmenni: Georgi Koskov (Jeroen Krabbé)
Bond stúlka: Kara Milovy (Maryam d‘Abo)
„Whoever she was, it must have scared the living daylights out of her“ – Bond
James Bond etjar kappi við bandarískan vopnasala og rússneskan herforingja sem ætla sér að koma af stað næstu heimsstyrjöld.
Roger Moore var lagður til hvílu eftir hina fremur mislukkuðu „A View To A Kill“ (1985) og nýr Bond kynntur til sögunnar. Ætlunin var að færa njósnarann nær sínum bókmenntalega uppruna og gera hann alvarlegri og harðneskjulegri en hann þróaðist í að vera í túlkun Moore. Velski leikarinn Timothy Dalton þótti standa undir væntingum og frumraun hans talin afar vel heppnuð í flesta staði.
Plottið er stórgott og lumar á nokkrum óvæntum framvindum. Dalton gerir Bond mun mannlegri og frekar ástríðufull túlkun hans skilar fjölþættari karakter sem þó enn lumar á skondnum tilsvörum og geislar af sjálfsöryggi og útgeislun. Hasaratriðin eru ekki af verri endanum og öll tæknilega hliðin er hreint stórkostleg með mögnuðum áhættuatriðum, bílaeltingaleikjum og skotbardögum út um allar tryssur (m.a. í Afganistan). Bond stúlkan Kara Milovy er góður karakter og d‘Abo er fín í hlutverkinu en hollenski leikarinn Krabbé er alger senuþjófur sem hinn slepjulegi Koskov.
Eftir á að hyggja má líta á „The Living Daylights“ og túlkun Daltons á 007 sem hálfgerðan forvera „Casino Royale“ og túlkun Daniels Craig á njósnara hennar hátignar. Dalton gekk skrefinu lengra í næstu mynd sinni, „Licence to Kill“ (1989), í að gera Bond enn harðneskjulegri en þessi nálgun á ofurnjósnaranum þótti helst of róttæk breyting frá túlkun Roger Moore.
Fróðleiksmoli: Norska tríóið A-ha flutti titillag myndarinnar. Gítarleikara sveitarinnar, Pal Waaktaar, samdi illa við meðhöfundinn John Barry (sem var með- og aðal höfundur margra Bond laga) og var ósáttur við lokaútgáfu lagsins. Barry var einnig hæstánægður þegar hann þurfti ekki lengur að vinna með þessum sjálfumglöðu Norðmönnum. Mörgum árum síðar viðurkenndi Waaktaar þó að útgáfan sem Barry lagði blessun sína yfir var betri en sú sem A-ha gaf út á eigin plötu.
8. For Your Eyes Only (1981)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Kristatos (Julian Glover)
Bond stúlka: Melina Havelock (Carole Bouquet)
„The Chinese have a saying: Before setting off on revenge, you first dig two graves“ – Bond
James Bond er sendur í leiðangur til að hafa upp á bresku dulkóðunartæki og gæta þess að það falli ekki óvinahendur.
Það ber að hrósa framleiðendum Bond seríunnar hér. „Moonraker“ færði njósnarann niður á ansi lágt plan og henti öllu því góða sem einkennt hafði betri myndir seríunnar út um gluggann þegar 007 var farinn að berjast úti í geimnum en myndin græddi mikinn pening. Það hefði verið þægilegt að framreiða meira af því sama en ákveðið var að planta Bond niður á jörðina og láta hann fást við aðeins venjulegri vonda kalla og eyða meira púðri í að búa til góða sögu. „For Your Eyes Only“ leitar aftur til upprunans í orðsins fyllstu þar sem töluvert af plottinu í bókinni „Live and Let Die“ (eftir Ian Fleming og var gefin út árið 1954) fann sér leið í handritið og úr varð besta njósnasagan um Bond í mörg ár.
Það vantar þó ekki hasarinn hér og Bond fæst við skrílinn á skíðum, í kafbát, á mótorhjólum og í fjallaklifri á einhverjum flottasta staðnum sem mynd í seríunni hefur verið skotin (í mögnuðum fjallagarði í Grikklandi) og með tilheyrandi sláandi áhættuatriðum. Sagan kemur á óvart og lumar á nokkrum óvæntum framvindum, Moore er mjög góður og finnur gott jafnvægi milli húmors og alvarleika og Carole Bouquet er eftirminnileg Bond stúlka.
Hefði „For Your Eyes Only“ ekki vísvitandi dregið úr yfirganginum sem var farinn að vera full áberandi er aldrei að vita hvert serían hefði farið.
Fróðleiksmoli: Framleiðslufyrirtækið United Artists var á barmi gjaldþrots eftir að „Heaven‘s Gate“ (1980) eftir Michael Cimino kolféll í miðasölu en sú kostaði formúgu í framleiðslu. Velgengni „For Your Eyes Only“ kom í veg fyrir það.
Aukamoli: Atriði í myndinni er greinilega misheppnuð taka en þar segir Bond; „Lovely driving in the country“ þegar hrörlegi guli Citroen bíllinn hossasst upp og niður fjallshlíð á flótta undan vopnuðum mönnum. Leikkonan Carole Bouquet springur úr hlátri en þessi kómíska sena var flátin flakka þrátt fyrir það.
7. The World is Not Enough (1999)
Bond: Pierce Brosnan
Illmenni: Renard (Robert Carlyle)
Bond stúlka: Dr. Christmas Jones (Denise Richards)
„There‘s no point living if you can‘t feel alive“ – Elektra King
James Bond tekur að sér að vernda olíuerfingjann Elektru King (Sophie Marceau) þegar hún er talin vera í lífshættu frá Renard, manni sem rændi henni og hélt fanginni fyrir nokkrum árum síðan. Renard er svo með eitthvað ráðabrugg í gangi og Elektra er ekki öll þar sem hún er séð.
Loksins fær Brosnan úr einhverju almennilegu að moða og allt við „The World is Not Enough“ smellur vel saman og úr verður fyrsta flokks Bond skemmtun. Handritið er þétt og vel skrifað og lumar á óvæntri framvindu sem framkallar meiri dýpt og gefur Brosnan tækifæri til að kafa aðeins dýpra í hluverk njósnarans. Hann gjörsamlega neglir það og Bond verður fyrir vikið enn áhugaverðari. Marceau og Carlyle eru fantagóð einnig og í þetta sinn fá persónurnar mun betri línur (sbr. við hina mislukkuðu „Tomorrow Never Dies“) og Judi Dench fær loksins eitthvað að gera og spilar veigamikla rullu í framvindunni. Hasaratriðin eru einnig fyrsta flokks og vel útfærð.
Það sem helst má finna að „The World is Not Enough“ er að hún er helst til of löng og Denise Richards er frekar ósannfærandi sem kjarnorkueðlisfræðingurinn Christmas Jones.
Fróðleiksmoli: Frekar kómískt atriði í byrjun myndarinnar sýnir Bond steypa bát í kaf og á meðan hann er neðansjávar réttir hann úr bindishnút sínum. Þetta var víst hugmynd á staðnum hjá Pierce Brosnan.
6. The Spy Who Loved Me (1977)
Bond: Roger Moore
Illmenni: Karl Stromberg (Curt Jurgens)
Bond stúlka: Anya Amasova / Agent XXX (Barbara Bach)
„You ever get the feeling that somebody doesn‘t like you?“ – Bond
James Bond rannsakar dularfullt hvarf breskra og rússneskra kafbáta sem báðir voru með kjarnorkuvopn um borð. Honum til aðstoðar er útsendari á vegum KGB.
Besta Bond mynd Roger Moore og hin fullkomna blanda af því besta og ævintýralegasta sem serían hafði þróast út í á þessum tíma. Hreint svakalegt ráðabrugg Strombergs um að eyðileggja allt líf ofanjarðar og byggja til hálfgerða útópíu neðansjávar er heldur betur langsótt (og hálf kjánalegt) en góður hraði, frábærar hasarsenur, vel skrifaður texti, meiriháttar hugmyndaflug (þessi Lotus Esprit sem getur kafað neðansjávar er alveg magnaður), gott samansafn af búnaði frá „Q“ og fleira heldur „The Spy Who Loved Me“ á floti og meira en það. Richard Kiel á góða innkomu sem „Jaws“ – maðurinn með stáltennurnar – og þessi skrattakollur er frekar ógnvænlegur og öll atriðin með honum fá hárin til að rísa; þá sérstaklega frekar harðneskjulegur bardagi um borð í lest milli hans og Bond.
Útsendarinn Amasova er vel leikin af Barböru Bach en óvænt drama og þó nokkur spenna myndast í kringum hana og Bond þar sem 007 drepur kærasta hennar í opnunaratriði myndarinnar. Umrætt byrjunaratriði er einmitt einnig meðal þeirra bestu en þar stekkur Bond (eða öllu heldur alveg klikkaður áhættuleikari) fram af gríðarlega háu bjargi á skíðum og fellur til jarðar í fallhlíf með breska fánanum. Jurgens er ágætur sem illmennið og augnakonfektið Caroline Munro skýtur upp kollinum sem „Vond“ stúlka.
Hinn gamansami og ævintýralegi Bond náði hápunktinum hér og það var ekki fyrr en njósnarinn fékk aðeins raunverulegri illmenni til að kljást við og steig nokkur skref til baka í yfirganginum að gæðin komu almennilega í seríuna á nýjan leik.
Fróðleiksmoli: Í lokin stendur að „James Bond mun snúa aftur í For Your Eyes Only“. Gríðarleg velgengni „Star Wars“ og „Close Encounters of the Third Kind“ urðu þó til þess að „Moonraker“ var skellt í framleiðslu á undan.
5. Casino Royale (2006)
Bond: Daniel Craig
Illmenni: Le Chiffre (Mads Mikkelsen)
Bond stúlka: Vesper Lynd (Eva Green)
„The job‘s done and the bitch is dead“ – Bond
Breski MI6 njósnarinn James Bond fær sitt fyrsta verkefni sem felst í að hafa upp á aðila sem fjármagnar hryðverk í stórum stíl fyrir dularfull glæpasamtök.
„Casino Royale“ var fyrsta Bond myndin í fjögur ár og var endurræsing í alla staði. Bond er nýliði hjá bresku leyniþjónustunni; óslípaður demantur sem er gott líkamlegt eintak, hraður og sterkur, úrræðagóður og fljótur að hugsa, óvæginn þegar þarf en frekar bráður og ofbeldisfullur. Hann er ekki alveg í náðinni hjá næsta yfirboðara sínum „M“ (Judi Dench) sem þó telur mikið í hann spunnið.
„Die Another Day“ var ekki góð Bond mynd og nokkuð ljóst að breytinga var þörf ef halda átti áfram með seríuna. Endurræsing var góð pæling og lokaniðurstaðan ein af betri myndunum í myndabálkinum. „Casino Royale“ var einnig fyrsta bókin um Bond eftir Ian Fleming (gefin út árið 1953) og þó svo að plottið sé töluvert öðruvísi þá eru skemmtilegar tilvísanir í hana (og einnig ber hún sama titil og hin hrikalega illa heppnaða „Casino Royale“ (1967) sem var fyrsta myndin sem gerði góðlátlegt grín að Bond og skartaði stórstjörnum á borð við Peter Sellers og David Niven); afturhvarf til fortíðar var uppleggið hér. En á sama tíma hafði ákveðin persóna að nafni Jason Bourne (sbr. „The Bourne Identity“ – 2002) búið til fyrirmyndar uppskrift að njósnara nútímans og hinn nýi Bond er sæmileg blanda af gömlu og nýju. Hér þótti hann aðeins mannlegri, aðeins berskjaldaðri og sýndi líkamlega áverka eftir barsmíðar og hreinar tilfinningar sem líkja má við túlkun George Lazenby í hluverki Bonds í „On Her Majesty‘s Secret Service“.
Craig er frábær sem Bond, Mikkelsen er fínn sem illmennið og Green einnig sem hin fjölþætta Vesper. Það var sterkur leikur að halda í Judi Dench sem „M“ og þessi klassa leikkona skilar hlutverki sínu vel. Hasarinn er hreint magnaður og margar bardagasenurnar ógurlega áhrifaríkar. Plottið er mikið og fer víða og klárast engan veginn hér þó svo ákveðin niðurstaða fáist.
Bond var kominn aftur með stæl og þó svo að næsta mynd hafi klikkað svolítið þá hefur Bond í meðförum Daniels Craig haldið góðum dampi.
Fróðleiksmoli: Fyrstu fjórir Bond leikararnir; Sean Connery, George Lazenby, Roger Moore og Timothy Dalton lýstu yfir mikilli ánægju með að Daniel Craig skyldi hafa verið valinn í hlutverkið.
4. Skyfall (2012)
Bond: Daniel Craig
Illmenni: Silva (Javier Bardem)
Bond stúlka: Eve (Naomie Harris)
„I always hated this place“ – Bond
Fortíðardraugar M snúa aftur til að hrella hana. Fyrr en varir er öll MI6 leyniþjónustan í hættu og James Bond þarf að skerast í leikinn til að takast á við ógnina.
Þessi er góð. „Skyfall“ heldur áfram með plottið sem „Casino Royale“ hóf en með talsverðum útúrdúrum sem snúa að fortíð M (Judi Dench) sem er þyrnum stráð með afdrifaríkum ákvörðunum í þágu þjóðaröryggis. Gríðarlegur hasar og uppgjör fylgja í kjölfarið og lokauppgjör fer fram á æskuslóðum Bonds og hann rifjar upp persónulegan missi sem hafði mótandi áhrif á hann.
Hér er óvenju mikla dramatík að finna þegar farið er í æsku Bonds og fortíð M. Illmennið Silva (stórvel leikinn af Javier Bardem) varð til þökk sé röggsamra stjórnarhátta M og því er vegferð hans af persónulegu gerðinni og hvatinn er síðbúin hefndaraðgerð sem beinist að bæði henni og Bond. Áhorfendur fá í fyrsta sinn meiri innsýn í Bond og hvernig hann varð eins og hann er og sá hluti „Skyfall“ er mjög vel af hendi leystur. Þrátt fyrir mikla lengd (143 mínútur) er hún aldrei hæg og mörg frábær hasaratriði eru framreidd hér.
Hér er einnig kynntur til sögunnar hinn nýi „Q“ (Ben Whishaw) og Bond er farinn að vera græjaður ýmsum tækjum og tólum líkt og áður. Leikstjórinn Sam Mendes finnur þó gríðarlega gott jafnvægi milli alvarleika og húmors og hér fá áhorfendur smá af hinu gamla góða blandað inn í þennan nýja (og alvarlegri) heim njósnarans.
Fróðleiksmoli: Blótsyrðið „F***!“ heyrist hér í fyrsta skiptið í myndabálkinum greinilega. Og hver lætur það út úr sér? Nú auðvitað daman Judi Dench sem „M“.
3. From Russia With Love (1963)
Bond: Sean Connery
Illmenni: Grant (Robert Shaw)
Bond stúlka: Tatiana Romanova (Daniela Bianchi)
„You may know the right wines but you‘re the one on your knees“ – Grant
James Bond er á höttunum eftir sovésku dulkóðunartæki og telur sig einu skrefi á undan glæpasamtökunum S.P.E.C.T.R.E. en svo er ekki. Yfirmenn samtakanna vilja hefna fyrir dauða Dr. No og fylgjast vel með hverju skrefi breska njósnarans og bíða færis til að fella hann.
Önnur mynd Connerys og jafnframt hans besta hefur upp á allt að bjóða sem Bond fíklar gætu viljað. „Dr. No“ hélt sig að mestu við einn tökustað en Bond fer víða hér og herlegheitin gerast á framandi slóðum; m.a. í Istanbul og eitt magnaðasta atriði seríunnar á sér stað um borð í Austurlandahraðlestinni. Plottið er þétt, vel skrifað og uppfullt af óvæntum framvindum, hasarinn er vel framreiddur og átökin hér eru óvenju harðneskjuleg. Af öllum þeim stórkostlegu atriðum sem í myndaseríunni er að finna, atriði sem kostuðu heilmikinn pening og voru gríðarlega flókin í vinnslu, er það frekar magnað að eitt það eftirminnilegasta er einfaldur hnefabardagi á milli Connery og Robert Shaw. Uppgjör Bonds og illmennisins Grant á sér langan aðdraganda og hægan stíganda en fundur þeirra um borð í Austurlandahraðlestinni og óumflýjanlegt uppgjör í lestarklefanum er algjör hápunktur í myndaseríunni. Bardaginn er mjög ákafur og svipuð handalögmál sáust í raun ekki aftur fyrr en Daniel Craig tók við keflinu.
„From Russia With Love“ er greinileg framför frá „Dr. No“ en strax var farið að nýta meiri tilkostnað til að búa til stærri hasarsenur og fjölga tökustöðum. Gríðarlegar vinsældir myndarinnar þýddu að formúlan var að svínvirka og allar á eftir urðu stærri og dýrari í samanburði. Myndin tekur sig þó ansi alvarlega og græðir töluvert á því á meðan aðrar voru með léttari tón í samanburði og aðeins ótrúlegri hasaratriði sem drógu úr trúverðugleikanum. „Goldfinger“ skóp hinn eina sanna Bond en „From Russia With Love“ sýndi njósnarann í sínu besta ljósi.
Fróðleiksmoli: Það þarf vart að koma á óvart en Sean Connery telur þessa mynd þá bestu sem hann lék sjálfur í.
2. Licence To Kill (1989)
Bond: Timothy Dalton
Illmenni: Franz Sanchez (Robert Davi)
Bond stúlka: Pam Bouvier (Carey Lowell)
„Effective immediately, your licence to kill is revoked“ – M
Eiturlyfjabaróninn Sanchez pyntir og aflimar CIA útsendarann Felix Leiter (David Hedison) og myrðir eiginkonu hans. James Bond hyggur á hefndir en er umsvifalaust sviptur drápsleyfi sínu af yfirboðurum og heldur á brott einn síns liðs.
Upprunanlega átti þessi að heita „Licence Revoked“ og í þetta sinn er Bond ekki á vegum hennar hátignar heldur í einkaleiðangri til að ganga úr skugga um að réttlætið nái fram að ganga. Hér var gengið skrefinu lengra (og meira en það) í að sýna Bond sem karakter sem veigrar sér ekki við að myrða í köldu blóði (og sjá til þess að farga öðrum) til að komast að skotmarki sínu. Felix Leiter, sem skotið hefur upp kollinum hér og þar í hinum ýmsu Bond myndum (ýmist leikinn af svörtum eða hvítum leikurum, ungum eða frekar rosknum), er það nánasta sem við höfum séð af vinskap Bonds við einhvern og hrottaleg meðferð á honum kemur njósnaranum svo sannarlega úr jafnvægi. Aldrei áður hafði Bond verið jafn beinskeyttur og öll áferðin í „Licence to Kill“ er í samræmi við skapferði hans. Ofbeldið er hrottalegra, hasaratriðin þeim mun groddalegri og tilkomumeiri, blóðflæðið mun meira áberandi og dauðdagi höfuðpaursins með þeim svakalegri.
Dalton er svo sannarlega ábúðamikill hér og styrkleikur hans í dramatískum tilþrifum skilar sér heldur betur. Davi stendur honum ekki langt að baki og hann gerir Sanchez að einhverju besta Bond illmenni síðan Goldfinger var og hét. Carey Lowell skilar frá sér sterkari og harðneskjulegri Bond stúlku en sést hefur og Desmond Llewelyn fær úr óvenju miklu að moða sem hinn óviðjafnanlegi „Q“ og stendur sig fantavel.
Þá er spurningin bara sú hvort áhorfendur vilja hafa Bond mannlegan og fjölþættan karakter (en hér er einmitt minnst á fyrrum eiginkonu hans) sem glímir við ýmsa djöfla eða nær yfirnáttúrulegan ofurnjósnara sem stígur varla feilspor. Áhorfendur voru pínu slegnir árið 1989 og myndaserían fór í smá „limbó“ þar til nýr Bond leit dagsins ljós sex árum síðar með töluvert breyttar áherslur.
Fróðleiksmoli: Atriðið þegar Bond er sviptur drápsleyfi sínu er tekið í húsi sem rithöfundurinn Ernest Hemingway bjó í. Því þótti það tilvalið að láta Bond segja „I guess this is a farewell to arms“ þegar hann lætur af hendi vopn sitt. „A Farewell to Arms“ er eitt af þekktari ritverkum Hemingways og var gefið út árið 1929.
- On Her Majesty‘s Secret Service (1969)
Bond: George Lazenby
Illmenni: Ernst Stavro Blofeld (Telly Savalas)
Bond stúlka: Tracy di Vicenzo (Diana Rigg)
„This never happened to the other fellow“ – Bond
Blofeld starfrækir ofnæmisrannsóknarstöð í svissnesku ölpunum og sækist eftir viðurkenningu greifartignar. James Bond nýtir sér persónuleg tengsl við mafíósa til að verða sér úti um upplýsingar til að nálgast Blofeld. Á meðan Bond undirbýr sig verður hann ástfanginn af dóttur mafíósans.
„On Her Majesty‘s Secret Service“ var nánast dauðadæmd áður en hún var frumsýnd. Connery sagði skilið við myndabálkinn og Ástralinn George Lazenby var fenginn í hans stað. Bond var ekki sami kvennabósinn og áður og varð í staðinn ástfanginn. Ekki bara ástfanginn heldur líka töluvert breyskari og á stundum jafnvel yfirkominn af hræðslu. Leikstjórinn Peter Hunt ákvað að færa seríuna aðeins nær jörðinni og tæki og tól „Q“ eru fjarri góðu gamni og meiri áhersla lögð á raunverulegri hasarsenur, hörð návígi og skotbardaga. Í stuttu máli var myndin svo til stráfelld af gagnrýnendum, áhorfendur voru ekki að falla fyrir Ástralanum og serían sem var hinn fullkomni veruleikaflótti var orðinn helst til of raunveruleg. Og hver vildi svo sjá Bond mynd sem endar með því að nýkrýnd brúður hans liggur andvana í fangi svala njósnarans sem svo fellir tár?
Eftir að rykið féll til jarðar og árin liðu áttuðu margir sig svo á því að þessi mynd var ekki alslæm. Hún var bara fjári góð. Á undan sinni samtíð komust margir svo að þegar ljóst var hvaða stefnu Bond myndir Timothy Dalton tóku og svo, mörgum árum síðar, Bond myndir Daniels Craig. Bond í meðförum Lazenby er breyskari mannvera sem gerir þónokkur mistök og missir alveg „coolið“ þegar öll sund virðast lokuð. Hann er mun þreknari og líkamlega sterkari en Connery og nýtur sín vel í átakaatriðum. Hann er þó pínu klaufskur þegar kemur að því að heilla konurnar og hugsanlega er það vegna þess að hugur hans er hjá einni ákveðinni konu. Tracy er líka algjört hörkutól þegar til kastanna kemur og stendur með sínum manni; hún meira að segja sér um aksturinn þegar parið flýr skotglöðu illmennin á snævi þöktum vegum Sviss.
Dramað er líka heilmikið í „On Her Majesty‘s Secret Service“ og ástarsagan fær mikinn skjátíma til að byggja sig upp og þróast. Lazenby er ekki beint að fylla í skarð Connerys þegar kemur að þessum hluta en Bond lætur allar varnir falla gagnvart Tracy. Ástralinn stendur sig vonum framar í hlutverki Bonds en staða hans var ekki öfundsverð því það var einfaldlega ekki hægt að toppa Connery. Leikstjórinn Hunt vildi því leggja áherslu á að breyta Bond pínulítið og gera hann að aðeins raunverulegri manneskju og Lazenby gerir svo sannarlega góða hluti hér. Einnig má ekki gleyma því að hasaratriðin eru allsvakaleg miðað við sinn tíma og sér í lagi eru skíðaatriðin og lokauppgjörið á bob-sleða hreint mögnuð.
Það er þó ekki hægt að komast hjá þeirri staðreynd að endirinn hér er gríðarlega sorglegur. En áhrifamáttur hans er tilkominn vegna alls sem á undan hefur gengið og þá ber að nefna fyrsta flokks handrit, leik, leikstjórn, tilþrifamikils drama og magnaðra hasaratriða sem saman mynda bestu Bond myndina að mati þessa rýnis. Svo sýndi þessi mynd ágætlega þá þróun sem Bond myndi taka á endanum en t.a.m. enda tvær af myndum Craigs á ljúfsárum nótum.
Þegar horft er til hefðbundinna Bond þátta veldur „On Her Majesty‘s Secret Service“ heldur ekki vonbrigðum. Telly Savalas er besti leikarinn til að túlka Blofeld, Diana Rigg var lengi vel lang sterkasta Bond stúlkan (a.m.k. þar til „Licence To Kill“) og ítalski sjarmörinn Gabriele Ferzetti sýnir góða takta sem Draco, væntanlegi tengdó Bonds.
Í alla staði er það synd að myndin vakti litla sem enga lukku þegar hún var frumsýnd en spennandi hefði verið að sjá hvernig Lazenby hefði spjarað sig í fleiri myndum og enn meira spennandi hefði verið að sjá Bond í hefndarhug ráðast gegn Blofeld. Sú hugmynd var víst á pallborðinu en reyndin varð sú að Bond, í túlkun Connery, sá um Blofeld í stuttu opnunaratriði í „Diamonds Are Forever“…en samt ekki. Það var viss virðingarvottur í upphafsatriði „For Your Eyes Only“ þegar Bond, í túlkun Moore, leggur blóm við leiði konu sinnar. Í kjölfarið kom svo að lokauppgjöri Bond og Blofelds.
Fróðleiksmoli: Nokkur atriði í myndinni eru algjört einsdæmi.
Snemma í myndinni sést Bond inni á skrifstofu sinni og á skrifborði sínu skoðar hann nokkra hluti sem hann notaðist við í fyrri ævintýrum. Samhliða hverjum hlut kemur þemalag hverrar undangenginnar myndar sem er skemmtileg vísun í fortíðina. Svo er þetta í eina skiptið sem Bond sést inni á skrifstofu sinni.
Einnig heimsækir Bond yfirboðara sinn, „M“, heima hjá sér og kemst að því að hann er mikill áhugamaður um fluguveiði. Það var svo ekki fyrr en árið 2012 að Bond laumaði sér inn fyrir dyr „M“ í „Skyfall“, henni til mikillar mæðu. – Þess ber að geta að karlmaðurinn Bernard Lee lék „M“ í þessari mynd.
Einnig rýfur Bond hér fjórða vegginn í eina skiptið þegar Tracy hleypur í burtu frá honum og þá segir hann; „This never happened to the other fellow“.