Blóði drifin hefnd Nicolas Cage

Hinn litríki Óskarsverðlaunaleikari Nicolas Cage er endanlega genginn af göflunum í fyrstu stiklu fyrir nýjustu mynd sína Mandy, sem margir bíða reyndar mjög spenntir eftir að sjá.

Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðum fyrr á árinu og fékk þar glimrandi viðtökur, og margir hafa sagt myndina mögulega þá bestu á þessu ári, en leikstjóri er Panos Cosmatos.  Talað er um að myndin sé eins og heillandi martröð, með flottum sjónrænum áhrifum, djöflum eins og menn muna margir eftir úr hrollvekjunni Hellraiser, blóðugum atriðum, og svo til að toppa þetta allt  , sjálfan Cage með vígalega stríðsöxi, sem ætti vel heima á plakati einhverrar þungarokkshljómsveitarinnar.

Í opinberum söguþræði myndarinnar segir frá því að myndin gerist árið 1983. Þau Red Miller og Mandy Bloom lifa rólegu og friðsælu lífi þegar sérstrúarsöfnuður undir stjórn Jeremiah Sand, sem haldinn er kvalalosta, ræðst á þau. Þar með leggur Red inn í draumkennda vegferð, fulla af blóði, eldi og hefndarþorsta.

Eins og sést í stiklunni er vitnað þar í ýmsa gagnrýnendur sem lofa leik Cage í myndinni, en hann hefur lengi átt erfitt uppdráttar hjá gagnrýnendum eftir misjafna frammistöðu í myndum eins og Ghost Rider: Spirit of Vengeance, Left Behind og Dog Eat Dog.

Aðrir helstu leikarar eru Andrea Riseborough í hlutverki Mandy, og Linus Roache sem leiðtogi sértrúarsafnaðarins.

Myndin er væntanleg í almennar sýningar í Bandaríkjunum 14. September nk.

Kíktu á blóðrauða stikluna hér fyrir neðan og plakatið þar fyrir neðan: