Michael Bay (Pearl Harbor, Bad Boys) og framleiðslufyrirtæki hans Platinum Dunes (sem stóð á bakvið titla á borð við The Texas Chainsaw Massacre og The Amityville Horror) er klárt til að framleiða endurgerð á Alfred Hitchcock myndinni The Birds. Myndin verður þó ekki endurgerð í sömu merkingu og t.d. Psycho myndin frá ’98 var gagnvart gömlu myndinni (þar sem nánast hver einasta sena var nákvæmt afrit á frummyndinni). Þessi nýja útgáfa verður meira byggð á stuttsögunni sem Universal hefur átt réttinn á og hvatti Hitchcock upphaflega til að gera sína útgáfu (aðstandendum líkar sjálfsagt illa við hugtakið ‘endurgerð’). Óvíst er hvort Bay muni sjálfur leikstýra myndinni, en hann var orðaður fyrir stuttu um að leikstýra væntanlegri stórmynd sem byggð er á Transformers fyrirbærinu góðkunnuga. Annars er Warner Bros. einnig búið að setja í gang framleiðslu fyrir aðra “Hitchcock-endurgerð,“ sem er Strangers on a Train og kemur líklegast út á næsta ári.

