Enn eru 3 mánuðir í lokakaflan í Batman-þríleik Christophers Nolan, en alveg síðan að kappinn tilkynnti að The Dark Knight Rises yrði hans síðasta Batman-mynd hefur kvikmyndaheimurinn velt því fyrir sér hver arftaki hans verður og hver stefna Batmans verður. Warner Bros. gáfu frá sér yfirlýsingu í dag sem leysir ráðgátuna í eitt skipti fyrir öll: Túlkun leikstjórans Darrens Aronofsky á Batman-myndasögunni Year One, sem var upprunalega í bígerð fyrir 12 árum, hefur fengið græna ljósið enn á ný.
Fyrir þá sem ekki vita, þá stóð til á einum tímapunkti fyrir tíma Nolans að fá Aronofsky til að tækla hráa og harðkjarna túlkun á karakternum. Höfundur Year One, Frank Miller, vann meira að segja náið með leikstjóranum að verkefninu, en lokaútfærslan sem mennirnir buðu Warner Bros. uppá var talin aðeins of fjarlæg frá upprunalegu sýninni og var verkefnið drepið samstundis.
Nú hins vegar, í ljósi vinsælda Batman-mynda Nolans, hefur verkefnið aftur fengið undir sig fótana og er jafnvel Nolan sjálfur að framleiða það.
Í myndinni, sem er að svo stöddu eingöngu þekkt sem The Caped Crusader, er Bruce Wayne ekki lengur sami kvennabósinn sem við þekkjum hann sem, heldur er hann sturlaður götubúi sem „hefnir sín á óþokkunum“. Hann klæðist hokkígrímu og keyrir um á svörtum Lincoln Continental (já, virkilega) á milli þess sem hann vinnur á verkstæði föðurímyndunar sinnar, Big Al.
Áður en verkefnið lifnaði aftur við hafði Aronofsky sagt að ekki aðeins ætti myndin að verða stimpluð R, heldur var hann jafnvel að íhuga Clint Eastwood í aðalhlutverkið. Síðan til að summa upp vildi hann meina að myndin yrði nokkurn veginn Taxi Driver hittir Batman.
Bæði saga myndarinnar og hugsanlegur leikhópur er allt tekið úr viðtölum eldri en nýútgefin yfirlýsing Warner Bros. þannig hversu mikið af upprunalega handriti Millers fær að halda sér verður bara að koma í ljós. Samkvæmt IMDb er myndin væntanleg í fyrsta lagi árið 2015.
Hvernig hljómar enn harðari túlkun á karakternum fyrir lesendum? Er þetta rökrétt leið fyrir seríuna eða vantar meira glitur í myndirnar?