Pitch Perfect 2 leikkonan og leikstjórinn Elizabeth Banks hefur verið ráðin til að leikstýra kvikmynd um ósýnilegu konuna ( e. Invisible woman ). Banks mun jafnframt leika í kvikmyndinni, að því er fram kemur í The Hollywood Reporter.
Myndin er endurgerð á mynd sem frumsýnd var árið 1940, en hún fjallaði um fyrirsætu í stórverslun, sem tekur þátt í ósýnileika-tilraun. Þegar hún verður ósýnileg, þá hefnir hún sín á leiðinlega yfirmanni sínum, en lendir óafvitandi í slagtogi við glæpamenn.
Upprunalega kvikmyndin var með grínundirtóni, og fylgdi í kjölfar mynda frá Universal kvikmyndafyrirtækinu, The Invisible Man og The Invisible Man Returns, en þær myndir voru með meira hrollvekjuyfirbragði.
Erin Cressida Wilson, sem skrifaði handritið að The Girl on the Train, skrifar handritið. Heimilidir The Hollywood Reporter segja að undirtóninum í myndinni sé best lýst með því ef Thelma & Louise væri blandað saman við American Psycho.
Í frétt vefmiðilsins segir að The Invisible Woman sé nýjasta hrollvekjan í röð mynda sem endurgerðar eru af Universal, sem endurskoðar nú hvernig það ætlar að vinna með sígildar persónur úr safni sínu. Kvikmyndaverið hætti við kvikmyndaheiminn Dark Universe eftir slakt gengi Tom Cruise myndarinnar The Mummy árið 2017. Nú er meira einblýnt á einstakar myndir og einstaka leikstjóra.
Fyrsta myndin undir þeim formerkjum er The Invisible Man sem leikstýrt er af Leigh Whannell, og frumsýnd verður 28. febrúar nk. Þá er Drakúlamyndin Renfield í undirbúningi, með Dexter Fletcher ( Rocketman ) sem leikstjóra, og Dark Army með Paul Feig við stýrið.
Fyrsta myndin sem Banks leikstýrði var Pitch Perfect 2 frá árinu 2015, og nýjasta mynd hennar er endurræsingin af Charlie’s Angels.