Árið 2011 setur met í framhaldsmyndum

Það vantar aldrei framhaldsmyndirnar í kvikmyndahús og hefur það færst í aukana að framleiðendur líti um öxl og reyni að finna líf í gömlum glæðum. Undanfarin ár hefur verið gríðarlega mikið um þetta en nú ár munu fleiri framhaldsmyndir koma út en nokkurn tímann áður. Heil 27 stykki, nánar tiltekið.

„Hollywood sækir nú í forna frægð í stærri stíl en nokkurn tímann áður. Það er sorglegt að sjá nýjar sögur lúta í lægra haldi fyrir annarri, þriðju, fjórðu eða jafnvel fimmtu mynd í seríu.“ segja spekúlantarnir hjá BoxOfficeMojo.

Þessi þróun kemur ekki á óvart því við nánari athugun kemur í ljós að á þessum áratugi hafa 8 af 10 tekjuhæstu kvikmyndunum verið framhaldsmyndir, en í fyrra, árið 2010, voru fjórar af fimm tekjuhæstu myndunum framhaldsmyndir. Ekki er nóg með þetta, heldur setur árið 2011 einnig met í fjölda mynda sem eru númer 4 og 5 í seríu, en það eru fimm stykki hvor.

– Bjarki Dagur