Afhverju er Emily Blunt ekki í Sicario 2

Spennumyndin Sicario sló óvænt í gegn árið 2015, en vinsældir myndarinnar voru ekki hvað síst að þakka aðalleikkonunni, Emily Blunt. Myndin var ein af nokkrum sem Blunt lék í á þessum tíma, sem komu henni rækilega á kortið í Hollywood, en hún lék einnig í Edge of Tomorrow og The Huntsman: Winter´s War. 

Með leik sínum í þessum myndum var Blunt orðin ein stærsta hasarleikkona í heimi. Auk þess var frammistaða hennar í Sicario lofuð af gagnrýnendum.

Framhaldsmyndin Sicario: Day of the Soldado verður frumsýnd í dag hér á Íslandi. Þeir Benicio del Toro og Josh Brolin, snúa aftur, en afhverju skyldi aðalstjarnan, Emily Blunt, ekki vera þarna á meðal?

Vefsíðan Bustle fer yfir málið, en upphaflega stóð til að Blunt myndi endurtaka sinn leik. Snemma í ferlinu, í mars 2016 nánar tiltekið, sagði framleiðandinn Trent Luckinbill við The Hollywood Reporter, að allar þrjár aðalstjörnur myndarinnar myndu snúa aftur.  En þegar á hólminn var komið þá tókst handritshöfundinum Taylor Sheridan ekki að finna nógu góða leið til að láta persónu Blunt passa inn í myndina, og hugsaði sem svo að í raun hefði hennar ferðalagi lokið með fullnægjandi hætti í Sicario.  „Það var mín ákvörðun, og á einhverjum tímapunkti þurfum við Emily að ræða þetta saman,“ sagði Sheridan við The Wrap í nóvember 2016.

En þó að Blunt sé ekki með í þetta sinn þýðir það ekki að hún geti ekki snúið aftur í mögulegum öðrum framhaldsmyndum í framtíðinni.

„Ég var að segja sögu sem var trú þessu hlutverki, og mér fannst ég ekki geta gert neitt með þessa persónu sem myndi bæta einhverju við þann heim, og yrði sanngjarnt fyrir persónu Emily,“ sagði hann m.a. við The Wrap.

Luckinbill hefur einnig látið hafa eftir sér að hann vilji fá Blunt í Sicario 3, ef sú mynd verður gerð.

Þó að það séu sannarlega vonbrigði að fá ekki að sjá Blunt í nýju myndinni, þá geta aðdáendur hennar glaðst yfir því að fá að sjá hana fljótlega í hlutverki einnar þekktustu sögupersónu allra tíma, Mary Poppins í Mary Poppins Returns. Þá er von á henni í ævintýramynd ásamt Dwayne Johnson sem heitir Jungle Cruise. Einnig má sjá hana í hrollvekjunni A Quiet Place, sem væntanleg er á VOD hér á Íslandi.