Gísli Örn á Super Bowl

 

Eins og
venjan er með okkur Íslendinga veitum við þeim erlendu myndum sem innihalda
einhvern landa okkar í stóru hlutverki sérstaklega mikla athygli. Helber dæmi
um slíkt eru þegar við hópuðumst til að sjá Anitu Briem sprikla fyrir framan
grínskrín í skemmtigarðavídeóinu Journey to the Center of the Earth, flykktumst
á Ingvar Stendurútúrfókusaðeinsfyriraftanharrisonfordallamyndina Sigurðsson í kafbátamyndinni K-19: The Widowmaker eða gerðum Maríu Ellingsen að metsölustjörnu í einu landi heimsins fyrir D2: The Mighty Ducks.

Nú er hins
vegar komið að því að verða spennt yfir tölvuleikjahasarnum Prince of Persia: The Sands of Time, en Gísli Örn Garðarsson mun leika Vesírinn, skuggalegt
illmenni, í þeirri mynd. Fyrstu stiklur myndarinnar einbeittu sér meira að
Hollywood-stjörnunum sem prýða önnur helstu hlutverk, eins og Jake Gyllenhaal, Gemmu Arterton, Alfred Molina og Sir Ben Kingsley, á meðan lítið sást í okkar
mann. Því var undirritaður orðinn áhyggjufullur í meira lagi og farinn að búast
við að Íslendingar hefðu enn einu sinni blásið hlutverk landa síns upp í
óraunhæfa stærð.

Svo kom
Super Bowl-stiklan. Dýrasta auglýsingapláss heims.

Jújú, þarna
voru Jake og Gemma spriklandi hálfnakin á húsþökum og sandstrætum, eins og við var að búast. En á meðan
ekkert sást til Dr. Octopus eða Gandhi var Gísli mættur í (vonandi aðeins
litlum hluta af) öllu sínu veldi, og í þessu 30 sekúndna broti birtist hann í
þónokkrum skotum og fékk línu og allt! Því er von mín um bitastætt hlutverk í
alvöru stórmynd fyrir góðan íslenskan leikara aftur lifnuð.

Þið getið
séð dýrðina á TV-svæðinu okkar. Þar eru reyndar líka Super Bowl-stiklur annarra
mynda, en þar sem Íslendingar koma hvergi við sögu í þeim er okkur drullusama.