Náðu í appið
Bönnuð innan 12 ára

Prince of Persia: The Sands of Time 2010

Frumsýnd: 19. maí 2010

Defy the Future

116 MÍNEnska
Rotten tomatoes einkunn 37% Critics
The Movies database einkunn 50
/100

Myndin gerist í Persíu á miðöldum og segir söguna af prinsi sem tekur höndum saman með prinsessu úr liði andstæðinganna, til að stöðva fyrirætlanir ills bróður konungsins, sem vill nota töfrum gæddan rýting til að breyta gangi tímans svo hann geti sjálfur orðið konungur.

Aðalleikarar

Ágæt en stórgölluð brellusúpa
Prince of Persia er sumarmynd í orðsins fyllstu merkingu; Hraðskreið, dýr, kjánaleg og einföld. Manni er þó oftast sama ef skemmtanagildið er á sínum stað, og ég get alveg sagt að ég hafi haft lúmskt gaman að þessari mynd. Get aftur á móti ekki sagt að hún angi af miklum ferskleika og þrátt fyrir metnaðarfulla framleiðslu þá kom það mér heldur betur á óvart hvað ræman er auðgleymd.

Hins vegar, ef við ætlum að ræða um kvikmyndir sem eru byggðar á tölvuleikjum, þá fer ekki á milli mála að þessi sé ein af þeim bestu. Það hljómar samt meira eins og diss á slíkar kvikmyndir heldur en hrós fyrir þessa. En það er því miður satt. Ástæðan fyrir því að Prince of Persia gengur upp er sú að hún gerir sér algjörlega grein fyrir því hvað hún er að reyna að vera. Það hífir hana samt pínulítið niður hvað hún sleppir sér einum of mikið í kjánaskapnum. Auk þess gerir hún þau algengu sumarmynda mistök með því að reyna fullmikið að höfða til barna og heiladauðra einstaklinga, og það gerir hún með því að taka sáraeinfalt plott og drekkja því í svokölluðum "exposition" ræðum. Myndin neyðist semsagt til að útskýra hvert einasta smáatriði í söguþræðinum eins og áhorfendur séu leikskólabörn. Það verður pínu þreytandi til lengdar. Hasarinn er líka lykilatriði í svona mynd, og ég verð víst að segja að hann er afskaplega misjafn. Stundum góður, en stundum þurr og óspennandi. Slow-motion skotin og tölvugerðu kameruhreyfingarnar voru líka heldur ofnotaðar.

Sviðsmyndirnar eru samt frábærar, og brellurnar oftar en ekki virkilega flottar. Það er varla hægt að hrósa leikurunum eitthvað sérstaklega því það er ógurlega lítið um frammistöður í allri myndinni. Fólkið er einungis skraut sem fylgir hasarnum og það er meira bara spurning hvort einhver passi ekki í rulluna sína. Jake Gyllenhaal sleppur alveg. Hann hefur útlitið (og six-pakkið) og virðist njóta sín á skjánum í hverri senu. Mér fannst samt eitthvað vanta upp á karakterinn hans til að gera hann viðkunnanlegri og skemmtilegri. Ég hélt aldrei nógu mikið með honum. Gemma Arterton er gullfalleg en rétt eins og í Clash of the Titans þá fær hún þá bölvun á sig að þurfa að vera sú sem útskýrir allt fyrir áhorfendum, sem þýðir að hún fær ekki mikinn karakter. Samskipti Artertons og Gyllenhaal (þetta "ég-segist-hata-þig-en-fíla-þig-samt" samband) eru einnig voða stöðluð og hefðbundin. ALLIR áhorfendur vita að þau kyssast í lokin, og það er í rauninni svo fyrirsjáanlegt að maður fer að velta fyrir sér hvort leikstjórinn sé að stríða manni. Mér hefði þótt það enn betra hefði hann ákveðið að rífa mottuna undan manni og sleppa kossinum alveg. Kemistrían er hvort eð er ekki mikil þannig að skjáparið hefði litlu tapað.

Ben Kingsley er samt því miður gangandi ímynd klisjunnar, og er því ekkert meira um hann að segja. Mér finnst líka drepfyndið að myndin skuli reyna að fela það fyrir manni að hann sé vondi kallinn. Þeir leikarar sem stóðu almennilega upp úr fyrir mér voru Alfred Molina (brandarakallinn sá!), Richard Coyle (horfði einhver á Coupling? Snilldarþættir) og - ótrúlegt en satt - Gísli Örn Garðarsson. Gísli fær þó ekki nema hnefafylli af línum og mjög einhæfan persónuleika, en af öllum persónum myndarinnar þá var þessi klárlega sú svalasta. Sé fyrir mér að það hefði verið svo miklu meira hægt að gera við hann.

Prince of Persia virðist hafa réttu hráefnin í það að skemmta krökkum og líklegast einhverjum fjölskyldum, en þeir sem eru í leit að einhverju minnisstæðara verða að segja pass við hana. Ég er samt mjög svekktur út í Mike Newell fyrir að skapa svona þunna færibandsmynd sem hefur ekkert meira en flott útlit og meðalgott afþreyingargildi. Þessi maður er einmitt þekktur fyrir karakterdrifnar bíómyndir sem hafa ákveðinn sjarma. Og hvað uppsprengda Bruckheimer-framleiðslu varðar þá snertir þessi mynd hvergi þann ferskleika sem einkenndi t.d. fyrstu Pirates-myndina, eða hinar tvær, ef út í það er farið. Ég skal samt alveg játa að það eru ýmsar mjög skemmtilegar hugmyndir í þessari mynd og það er ákveðin sena milli Gyllenhaal og Coyle sem tímabundið fékk mig til að missa poppið úr munninum á mér. Frekar kjarkaður hlutur sem sá fyrrnefndi gerir - og hvað þá í "barnamynd." Verst að maður fékk ekki þannig senur oftar en einu sinni.

6/10 - Rétt slefar í sexu.

Fannst þér gagnrýnin hjálpleg? Nei
Skrifa gagnrýni
Senda inn

Svipaðar myndir


Skrifa söguþráð
Fyrirsögn
Takk fyrir aðstoðina, þú ert stjarna.
Senda inn