Undirritaður sá teiknimyndina Coraline núna fyrir stuttu og vildi helst taka það skýrt fram við m.a. foreldra að myndin er engan veginn við hæfi barna. Ég segi þetta aðallega vegna þess að ræman hefur verið talsett á íslensku og er meirihluti sýninga hennar á því máli. Þetta þykir mér vera hálf glatað og fáránlegt, og skyldi ekki eitthvað koma sérstaklega fram um þetta spái ég fjöldakvörtunum yfir helgina. Án djóks.
Ég sá myndina ásamt fjórum öðrum og vorum við eftirá öll sammála um að hún væri alltof drungaleg, ljót og jafnvel fullsúrrealísk fyrir krakka undir cirka 10 ára til að meðhöndla. Myndin er líka áberandi ætluð eldri hópum. Auðvitað eru margir krakkar sem léttilega þola svona myndir. Sjálfur horfði ég reglulega á Aliens í kringum 8-9 ára (samt útaf einhverjum ástæðum þorði ég aldrei að horfa á Gremlins – skrítið), en betra að hafa varann á.
Coraline er annars sýnd á ensku kl. 8 í Kringlubíói öll kvöld.

