Gríðarlegar vangaveltur hafa myndast í kringum þriðju Batman myndina, þ.e. hvort hún verði gerð og ef svo, þá hver myndi leika illmennin í henni. Stórleikarinn Michael Caine var í viðtali við MTV nú um daginn og sagði að framleiðendurnir hefðu þá Johnny Depp og Philip Seymour Hoffman í huga, en Caine leikur brytann Alfred Pennyworth í The Dark Knight og Batman Begins.
„Þeir vilja Johnny Depp sem The Riddler og Philip Seymour Hoffman sem The Penguin, ég las það í blaðinu“ sagði Michael Caine í umræddu viðtali. Þetta hljómar auðvitað eins og hann sé að lesa sama slúðrið og við hin en hann hélt áfram, eftirfarandi er þýddur bútur úr viðtalinu.
„Þegar Christopher Nolan sagði að við myndum gera The Dark Knight næst þá vissi ég ekki alveg hvað það þýddi. Ég spurði hann því hver sagan væri og Nolan sagði að hún myndi snúast um Jókerinn, og að Heath Ledger myndi leika hann. Oh shit! Hann gæti toppað Jack Nicholson! sagði ég.“
„Ég spurði svo framleiðendurna um daginn hvort við myndum gera aðra. Þeir sögðu já og ég spurði hvernig þeir ætluðu að toppa þá fyrri. Þeir sögðu þá orðrétt: Ég skal segja þér hvernig við ætlum að toppa The Dark Knight – Johnny Depp sem The Riddler og Philip Seymour Hoffman sem The Penguin!“
Hann sagði einnig að Christopher Nolan væri í fríi og að hann kæmi með handrit einhverntímann.
Mitt álit
Ég veit nú ekki alveg hvort Caine er að bulla í okkur eða ekki, hann virðist allavega reikna með því að Nolan muni leikstýra þriðju myndinni, en sú fullyrðing er eitthvað sem enginn hefur þorað að lofa hingað til. Ég þori ekki að segja til um hvort Depp og Hoffman munu leika illmennin í næstu mynd, en ég get lofað því að það væri óendanlega nett!

