Það var mikið! Það tók nú ekki nema þrjár bíómyndir og svo loks heila sjónvarpsseríu til að Wanda Maximoff fengi þann velkomna grunnfókus sem hún átti skilið; þennan lágmarkstíma til að þróast eða njóta sín sem persóna, enda áhugaverð persóna. Þetta er kannski sérstaklega furðulegt þar sem hún hefur hingað til verið ómissandi en þó aðallega í uppsprengdu gestahlutverki (þá í Age of Ultron, Civil War og Infinity War). Eins og þykir nú eðlilegt að slegist sé um skjátímann í ofurhetjusamkomum er þó aldeilis aumt tilfellið hér í ljósi t.d. þess að Maximoff spilaði mjög stóra rullu í því að keyra framvindu þessara titla af stað, og tók reglulega miklum breytingum utan ramma á milli hverrar myndar.
Hið sama gildir akkúrat um undravélmennið Vision; sem er forvitnilegur, yfirvegaður, existensíalískur karakter með kosmíska krafta en hafði hér áður bara þvælst fyrir eða svifið í gegnum plottin með fáeina viskumola á milli. Það getur þó reyndar líka verið að þessi ósanngjarna dreifing og sparsemi á skjátíma þeirra beggja sé lituð af því hvað Elizabeth Olsen og Paul Bettany hafa lengið verið stórlega vanmetnir og þrælflottir leikarar.
Kemur þá ekki þessi fíni, mátulega súri en bragðmikli WandaVision-bræðingur eins og kallaður; heilt risabatterí í formi fyrsta „samstarfs“ hjá Marvel Studios og Disney+. Samanlagt er þetta líka lengsta sjálfstæða sagan frá þessum bíóheimi ef horft er á þetta eins og 240 mínútna kvikmynd.
Síðast þegar við sáum Maximoff var allt orðið með felldu, þannig séð, í heiminum eftir að svokallaði Thanos-smellurinn varð afturkallaður. Nema hvað, á meðan allir voru uppteknir að frussugrenja eftir fórn Tonys Stark, sat Wanda eftir á meðal fárra sem fékk ekki sinn ástvin til baka og stóð allslaus og týnd eftir stóra partíbardagann í Endgame.
Líf hennar hefur verið sérdeilis þyrnum stráð frá æskuárum og upp úr. Ung að aldri verður hún munaðarlaus og alin upp sem heilaþvegið tilraunadýr í köldum, ferköntuðum klefum, og lítið bötnuðu dílarnir til lengdar þegar hún skipti um lið og gekk í Avengers teymið. En mannssálin getur bara þolað x mikinn óróa eftir að tvíburabróðir hennar er nýlátinn og makinn drepinn í tvígang. Ekki nóg með það, heldur þurfti auðvitað Wanda að sjá um annað ferlið, bara til þess að horfa upp á einhvern fjólubláan þursa með glanshanska snúa atvikinu við – og drepa elskhugann upp á nýtt. Eðlilega gætu þessir atburðir í lífi Maximoff hafa komið einhverju hættulegu af stað – og í senn mögnuðu.
En hvað gerist þegar ofuröflug hetja verður fyrir áfalli? Hvað þá nokkrum? Hvernig líður fólkinu í kringum þá sem eiga um sárt að binda á verstu stundu? Eða þegar djöflarnir eru sterkir og farangurinn er farinn að verða íþyngjandi á fleiri en bara einstaklinginn? Getur tíminn nokkuð læknað sárin þegar fortíðin er óuppgerð, sama hvaða kraftar eru í boði?
Fljótt má sjá hvað hvernig frásagnarstíll, tónn og innihald þessarar sjónvarpsseríu hefur allt öðruvísi snið heldur en aðdáendur Marvel-sarpsins eru orðnir vanir. Þarna má verulega hrósa þessum notalega ferska vinkli, súrrealismanum sem fylgir og dulúðinni í framvindunni. MCU-heimurinn er þekktur fyrir ýmiskonar góðgæti en marglita og léttlagaður samfélags-, karakter- og poppkúltúrsádeila er eitthvað allt, allt annað nammibragð – og tryllt tilbreyting vissulega. Svo má ekki gleyma uppsetningu sögukaflana níu, þar sem mikil tribjút-áhersla er lögð á gildi, trend og þróun bandarískra gamanþátta síðastliðin 50+ ár. Það kemur skemmtilega út hvernig hverju þematímabili er dreift út, sem undirstrikar hvað ákvörðunin um vikulega útgáfu þátta var lummulega klók.
Mikið er lagt upp úr smáatriðum þegar kemur að fara alla leið með stílinn, húmorinn og fíling gamanþátta eins og I Love Lucy, The Dick van Dyke Show, Bewitched, Malcolm in the Middle og fleiri. Aðstandendur lögðu greinilega mikla vinnu í að stúdera, kópera og fikta við formúlu og uppsetningu þessara þátta. Enn fremur er mikilvægt hversu fáránlega vel tekst til með að gera þessi mótíf að náttúrulegri þróun innan sögunnar.
Olsen er annars vegar alveg í réttu fagi, en þetta var ljóst alveg frá hennar fyrsta kvikmyndahlutverki í Martha Marcy May Marlene (og þvílíkt góð mynd til að hefja ferilinn á). Hún hefur sýnt fram á að brillera í kómík og hádrama – og allt þar á milli. Við kaupum hana auðveldlega sem hetju, sem skúrk, sem óvissufígúru en umfram allt manneskju sem verður aldrei minna en spennandi til gláps. Mannúðin, bælingin, sagan og kemistrían sem hún skilar með samleik sínum við Bettany hefði kannski mátt finnast í meiri mæli, en þegar þau tvö fá að njóta hvaða mómenta sem þau fá verður skjárinn rafmagnaður.
Þau Wanda og Vision eru líka svo yndislegt „odd-couple“, miklar andstæður og gerólík í karisma og „outcast“-týpur og merkilega viðtengjanleg, tragísk jafnvel. Miðað við allt sem hefur á undan gengið hjá Vision er algjör dásemd að fylgjast með atriðum þar sem Bettany leikur sér að kómíkinni. Fólk má ekki gleyma að fyrsta stórfræga hlutverk Bettanys fól það í sér að stela senunni af Heath Ledger, Alan Tudyk og fleirum í A Knight’s Tale – og af ástæðu; gæinn getur verið hilaríus!
Síðan eru Kat Dennings, Randall Park, Teyonah Parris, David Lengel og Kathryn Hahn (…og enn fleiri) miklir senuþjófar og Hahn trúlega í mesta uppáhaldinu. Persóna og frammistaða hennar dvínar þó pínu í tilþrifum eftir því sem á líður og fer að síga í stærra sjónarspilið. Hún er samt vissulega góð þó klisjuhlekkirnir verði meira áberandi – og lokaþátturinn er að mestu algjört æðidúndur.
Flestir ef ekki allir kannast við það að lifa í eigin búbbluveröld (í mismiklum mæli, vissulega). Sumir kjósa búbbluna, jafnvel herða á henni, hvort sem það er leið til að flýja annan veruleika, hremmingar, þjáningu. Þetta getur gerst út af hræðslu við hið óþekkta, hræðslu við raunveruleikann, hræðslu við fólk, skoðanir, menningarheima, breytingar eða einfaldlega hræðslu við að horfa inn á við.
Við fyrstu sýn kemur gamanþáttaóðurinn í WandaVision eins og fjölbreytt eða skondið gimmick, en síðar meir fer það að taka á sig miklu skuggalegri mynd – á meðan getið er þess að varpa fram kommenteríu á lífið í ameríska draumnum (hús í úthverfum, kjarnafjölskylda, sæt gæludýr, góðir grannar, öll leiðindi leyst á 20 mínútum o.s.frv.).
Í „búbbluheimi“ Maximoff reynir hún hvað mest að halda í föstu hefðir gefinna tímabila sjónvarpssögunnar, frá staðalmyndum til kynjahlutverka og misborðliggjandi fordóma. Þegar andsetinn sjónvarpsleikari þessa spils í búbblunni fer ekki alveg eftir leikreglum eða handriti er venjulega þarna spilað með leiðir handritshöfunda til að rýna ört í tímaskekkjurnar. Þetta fer voða ólaumulega fram, en áhugavert er að sjá hvernig sumar ýktar sjónvarps-erkitýpur og karakterklisjur úr tímum gamla Kanadraumsins varpa vel fram hugmyndum sem hafa lítið breyst sums staðar í samtímanum.
Þó á móti eru djörf múv og tilbreytingar ekki stikkfrí frá göllum. Almennt séð er handritsbygging seríunnar og leikstjórn Matt Shakman galltraust og meiriháttar, sama hvort um flipp, myrkt eða dramaefni ræðir, en það dúkka upp nokkur sárlega taktlaus móment sem eiga að vera einlæg – en þá tekur við Disney-keimurinn sem við þekkjum mörg, líkt og að japla á plasti.
Baksögusenan með ungri Wöndu og fjölskyldu er hinn mesti viðbjóður allrar sögunnar. Og jú, fyrir tilviljun fylgir þarna stærsta brotið á tímalínunni, þegar baksagan leggur beinan fókus á Malcolm in the Middle þættina heilu ári áður en þættirnir voru fyrst sýndir. Annars eru mystískir hlutir og áhugaverðar hugmyndir líka sums staðar of ítarlegar útskýrðar í (…„munum-að-þetta-er-líka-gert-fyrir-krakka“) leiðum til að stafa út þemun. En, þegar horft er á stærri heildina, eins og áður er gefið til kynna, er það nógu sjaldséð þegar MCU einingarnar ná almennilega að fjalla um og kafa dýpra ofan í menningarheima og hið mannlega.
WandaVision er allt það sem þáttaröðin ætlar sér að vera í grunninn; þrumugóð skemmtun með þétta keyrslu og hlaðin uppákomum sem gætu jafnvel komið fólki sem las myndasögurnar á óvart. Bónusinn er samt sá að það vill svo til að á meðan að á sprellinu stendur fær líka að blómstra þarna persónuleg, sækólógísk lítil (ný)upphafssaga með þemaáherslu lagða á missi, sorgarferli, áfallastreitu, gráu svæðin á móralska radarnum, einkenni sjálfs og ágæti amerískrar sjónvarpsfroðu.
Serían gengur upp sem sjálfstæð eining, þó saga Maximoff/Scarlet Witch er heppilega enn rétt að byrja. Góður hluti af manni langar helst í aðra „WandaVision“ seríu strax, auðvitað! En, svo undirritaður umorði gömul viskuorð frá Vision: Fegurðin felst ekki í endingunni.
Í styttra máli: Hlátur, grátur, sjónvarpsklisjur og sálfræðiflækjur. Nýtt og hressandi skref hjá Marvel/Disney+ sem rígheldur gamaninu og öllu sem fylgir með.