Alvara í fullu fjöri

Stundum geta kvikmyndir sem hljóma eins og ódýrt, svonefnt „lyftu-pitch“ í plottlýsingum haft miklu, miklu meira fram að færa en formúlukeyrðan rússíbana. Gamandramað Druk e. Another Round virkar eins og afbragðs leið til að sýna hvernig simplískur en lokkandi söguþráður getur gengið upp sem stökkpallur fyrir miklu dýpri skoðun heldur en blasir við í fyrstu.

Það má ímynda sér allar mögulegu útkomur á því hvernig amerísk endurgerð gæti ryksugað allt rafstuðið úr þessu, eða breytt hinu ósagða í beina predikun eða þunnt aðhlátursefni. Engu að síður segir farsaplottið sem hér um ræðir frá fjór­um félögum á miðjum aldri sem finna fyrir skýrum merkjum um stöðnun. Vinirnir kenna allir við sama menntaskólann og ákveða dag einn, á meðan á fljótandi fögnuði stendur, að sannreyna heldur athyglisverða mýtu. Sú kenning felur í sér að mönnunum muni ganga betur í lífinu á meðan þeir eru með örlítið magn áfengis í blóðinu út meirihluta dagsins (þar með sérstaka áherslu á vinnudaginn). 

Tilraunin reynist bæði hafa fyrirsjáanleg og óútreiknanleg áhrif í lífi þessara vina. Sumir fara að uppgötva nýjar og óskoðaðar hliðar á sjálfum sér, hressilega öðruvísi sýn á tilveruna og hvort sem þeim líkar það betur eða verr siglir allt í ansi merk kaflaskil hjá hópnum eins og hann leggur sig. 

Danski fagmaðurinn Thomas Vinterberg er venjulega á miklum heimavelli þegar kemur að einföldum sögum um hið grátbroslega eðli mannsins og dramatískan spíral úr vissu sakleysi niður í eitthvað skuggalegra. Því miður líður oft lengra á milli gæðaverka Vinterbergs heldur en óskandi er, en Druk markar Danann í essinu sínu þar sem öll litlu gangverkin og smáatriðin dansa saman. Myndin sameinar fyrst og fremst rótsterkt lið leikara (þó Mads Mikkelsen sé vissulega fremstur) við þétt handrit sem kemur á óvart og smám saman fer það þær leiðir sem áhorfandinn óttast en innst inni hlakkar til að sjá. 

Vinterberg fordæmir aldrei karakterana á skjánum en skefur heldur ekki utanaf göllum sem blasa við. Druk sækir að vísu ekki í sömu sálarspörk og einkenndu toppdaga leikstjórans, þá aðallega Festen eða Jagten, og á frekar meira sameiginlegt með t.d. hinni ágætlega vanmetnu Kollektivet, en stórskemmtileg er ræman samt; hugguleg, súrsæt, umhugsunarverð og sóar ekki einni einustu mínútu. Þvert á móti hefði alveg bæta þónokkrum slíkum við til viðbótar, þó ekki nema bara til að einblína ögn meira á kvenpersónur sögunnar. Þó sagan fjalli ofar öllu um vinahóp og tilraunir stráklinganna (og trúlega meira svo um persónu Mads) er af og til skimað yfir þyngri vanda sem koma öðrum karakterum við. Má þó kannski færa rök fyrir því að staðsetning sumra þeirra sem hverfa í bakgrunninn tilheyri tilgangi þeirra umræðna sem spilað er með, sem sýnir hvernig lykilpjakkarnir verða oft blindir fyrir öðrum sem standa þeim hjá.

Áhorfendur geta leyft sér að gægjast undir yfirborð atburðarásarinnar á meðan Druk gengur einfaldlega líka stórvel upp sem furðu aðgengileg og hressandi afþreyingarmynd. Lokasenan er sömuleiðis algjör fjársjóður, þar sem ýmsum brögðum er beitt til að segja allt sem þarf að segja án þess að nokkuð sé í rauninni sagt hreint út. Virðist þá vera óhaggandi staðreynd að Mads er alveg „með’etta“ þegar hann hefur nóg til að halda utan um. Þeir Vinterberg virðast draga einhverja trúverðugleikatöfra úr hvor öðrum.


Í styttra máli: Vinterberg og vinir brugga hérna bráðskemmtilega dramedíu sem rennur ekki hratt af áhorfendum, að minnsta kosti ekki þeim sem finna tilefni til að skála með persónunum, hlæja að þeim, hneykslast eða hlæja með þeim. Geggjuð blanda.