Það er skandall að á meðan tíu kvikmyndir þar sem Spider-Man kemur við sögu og töluvert fleiri með Batman, að Wonder Woman hafi fyrst fyrir þremur árum birst í kvikmynd. Að vísu hafði Zack Snyder kynnt hana til leiks árið 2016 í hinni ofhlöðnu ‘Dawn of Justice,’ þar sem Gal Gadot átti fína innkomu en fór ekki að spreyta sig til fulls á hlutverkinu fyrr en fyrsta sólómynd hennar, undir leikstjórataum Patty Jenkins, leit dagsins ljós.
Fyrri myndin féll vel í kramið hjá áhorfendum og heimurinn tók túlkun Gadots í sátt, og takta Jenkins ekki síður. Fram að Wonder Woman (‘17) hafði nýi DC heimur Warner Bros. átt erfitt flugtak og því var fyrsta Wonder Woman myndin tilefni til bjartsýni um áframhald á ævintýrum Amazon-prinsessunnar Díönu.
Jenkins er snúin aftur og er nú með svigrúm til að leika sér með allt öðruvísi svip og stíl. Forverinn gerðist á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar en framhaldsmyndin (WW84), líkt og nafnið gefur til kynna, fer þá leið sem Hollywood-myndir hafa að undanförnu elskað og í hvívetna gert, að notfæra sér sögusvið níunda áratugar síðustu aldar. Það má alltaf mjólka meiri nostalgíu upp úr stemmningu þess áratugs, en það sem öllu máli skiptir er að framhaldið gleymir aldrei að fronta og setja fókus á gildi og gullkjarna söguhetjunnar.
WW84 er á margan veg það sem hún vill vera; heillandi og fín afþreying með góðan móral, gott lið leikara og æðislega pósitífan anda. Myndin er þó fáeinum skrefum fyrir aftan fyrstu myndina í gæðum og líður fyrir það að gera oft góðum hugmyndum vandræðaleg skil, og oft vantar almennilegan púls í hasarsenurnar.
Kannski er það klippingin, kamerumaðurinn (Matthew Jensen, hinn sami og skaut fyrri myndina), takturinn, fáein ljót “bluescreen” skot, eða eitthvað allt annað, en útkoman hjá Jenkins og teyminu hefur allavega í tvígang sýnt að sjónarspilið og mestu stuðsenurnar er ekki alltaf upp á marga fiska. Fyrri myndin kom þó ögn betur út (þá helst bardagasena Amazon-kvennanna og No Man’s Land kaflinn) og þessi er ekki laus við flotta ramma. Eitthvað lafir þó í atmóinu frekar en að spenna það upp, og á vissan hátt á Hans Zimmer smá hlut í því, en hann hefur átt betri daga. Jafnvel þó Zimmer hafi upphaflega (fyrir BvS) samið þematónlist Wonder Woman komast stefin hvergi nálægt því sem Rupert Gregson-Williams áorkaði í fyrri myndinni. Besta tónlistin í WW84 kemur reyndar hvorki Zimmer við né ‘80s slögurum, heldur úr bút úr Sunshine eftir John Murphy; hið sama stef og heyrðist einnig í Kick-Ass.
Jenkins neglir sjarmann, glæsileikann, þokkann, sálina og líflegu dýnamíkina á milli leikaranna. Til allrar hamingju eru þetta mikilvægustu þættirnir, en annars er yfirleitt skemmtilegra að fá líka fjörugan, dúndurspennandi hasar í svona bombastíska og fantasíukennda veislu.
WW84 er skítsæmilega pökkuð af deilum, vaxandi óreiðu og ásættanlega einbeittum karakterfókus til að rúlla vel í gegn á tæpum 150 mínútum. Lokaútkoman gerir þó óneitanlega kosti og galdra fyrri myndarinnar þeim mun meira sjarmerandi, alla vega þá kosti og galdra sem eru alveg týndir í þessari umferð, þó sú fyrri hafi alls ekki verið gallalaus.
Báðar myndir Jenkins eiga það þó alvarlega sameiginlegt að landa ekki alveg lokaþriðjungnum. Hvort það skrifist á tens-lausan hasar eða visst predikunarmynstur er góð spurning, en eðlilega eru það alltaf vonbrigði þegar ofurhetjumynd hefur löngu náð að toppa sig í kringum miðbikið.
Inná milli er það hin mesta dásemd að fylgjast með Díönu stökkva, fljúga, sveifla sér á milli eldinga eða vaða í vopnaða menn – með seiglu, styrk og ofar öllu bjartsýnina að vopni. Gadot sannar sífellt betur að hún hefur æðislega traust tak á þessari ofurhetju. Hún er flott, hörð, viðkunnanleg… og mig langar ekki lítið í svona kórónu-bjúgverpil eins og hún hefur.
Það er heldur ekki sjálfgefið að allir í leikhópnum séu eins til í fjörið og í eigin orkugír þegar kemur að hasarblaðamyndum. Jenkins er umkringd hinu skemmtilegasta fólki; allt frá hressum endurkomum (t.d. óeðlilega elskulegum Chris Pine eða vannýttri Robin Wright) til nýrra andlita. Kristen Wiig vefur persónu sinni um fingur sér sem býður ekki endilega upp á margar víddir í handritinu en setur góðan stíl á annan skúrkinn. Verðlaunin fyrir yfirdrifnustu frammistöðuna fara þó rakleiðis til snillingsins Pedro Pascal. Leikarinn er í húrrandi háum gír og fílar sig í botn, enda segja flökkusögur að hann hafi sótt innblástur í Nicolas Cage.
Pascal lendir þó í svipaðri stöðu og Wiig að því leyti að handritið nær ekki alveg að selja eða fita persónusköpunina. Besta dæmið þar er ein sena undir lokin, þar sem augljóslega er leitast eftir tilfinningalegum hápunkti – á milli hans og annarrar persónu í innsta hring – en áhrifin skila engu. Frammistaðan er í lagi en þróun karaktersins hefur ómögulega náð að réttlæta eða sannfæra mann um að allt smelli svo vel. Í þessu dæmi má svo sem sjá að þemun skipta leikstjóranum meira máli heldur en lógík í söguþræði, og það er jákvætt merki, en ódýrt melódrama er ódýrt melódrama.
Afþreyingargildið er til staðar, söguhetjan heillar og það er heilmikið pláss fram undan til að leika sér áfram með Gadot í þessum hluta DC-heimsins. WW84 hafði fína burði til þess að skara fram úr í hópi einsleitra ofurhetjumynda, sem hún gerir vissulega í litlum sprettum, en úr þessu hnoðast lítið meira en poppskemmtun sem rétt sniglast yfir meðallag.
Í styttra máli: Undrakonan berst fyrir bjartsýninni og WW84 fangar þann fíling vel, en það lendir líka á aðstandendum að berjast fyrir því að halda haug af boltum á lofti.