Brot á meðal tíu bestu þáttaraða ársins

Íslenska spennuþáttaröðin Brot (e. The Valhalla Murders) er valin meðal tíu bestu þáttaraða ársins í Bretlandi á menningarsíðu BBC. Segir í úttekt miðilsins að þættirnir átta séu kjörnir fyrir „hámhorf“ á vetrartíma og er farið fögrum orðum um íslenska landslagið, þemun og ekki síður tónlistina.

Serían hefur almennt notið gífurlegra vinsælda á Netflix víða um heim. Þættirnir voru fyrr á árinu gefnir út á streymisveituna í Bandaríkjunum, Noregi, Danmörku, Spáni, Svíþjóð, Frakklandi og Nýja Sjálandi svo dæmi séu nefnd.

Þættirnir hófu göngu sína á Íslandi um síðustu jól og segja frá því þegar eldri karlmaður finnst myrtur við Reykjavíkurhöfn undir óvenjulegum kringumstæðum. Í kjölfarið fer af stað ótrúleg atburðarrás sem tengist atburðum sem áttu sér stað á drengjaheimili.

Það eru Nína Dögg Filipusdóttir og Björn Thors fara sem fara með aðalhlutverkin í þáttunum.