Eru hæfileikar ofmetnir?

Eftir fjórar kvikmyndir í fullri lengd er orðið ljóst að Sigurður Anton Friðþjófsson – leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur – hefur fundið formúlu sem hentar honum og hans persónuleika. Uppskriftin gengur út á að finna sífellt nýjar leiðir til að hengja alls kyns brandara, einræður um samtímann og léttgeggjuð samskipti hversdagsfólks á sögur sem á yfirborðinu luma á einlægni og sannleika. Þó er ávallt stutt í tóma klessu þegar allt sem viðkemur tilfinningakjarna er útfært eins og beiðni af verkefnalista.

Eflaust getur það að skrifa gamanmynd um uppistandara verið hálfgert jarðsprengjusvæði, þar sem persónur hafa skýra gæðakríteríu á húmor, hvað virkar og hvað ekki. Í slíkum tilfellum hjálpar þó að hafa sterkt og hlægilegt handrit til þess að nálgunin verði marktæk. Án slíks stæði ekkert eftir nema ólga af dauðu lofti og ímyndaður dósahlátur.

Hvergi kemst þetta betur til skila en í sviðsrútínu annarrar aðalpersónu kvikmyndarinnar Mentor. Þar gengur uppistandið einfaldlega út á að skrifa haug af one-linerum á pappír, draga út nokkra af handahófi á sviði og vonast eftir húrrandi góðum viðtökum úr sal. Sigurður Anton virðist notast við akkúrat þessa aðferðafræði í efnistökunum; með því að teygja höndina blindandi eftir hverjum aulafrasanum á eftir öðrum – í 90 langar mínútur.

Þó Mentor hafi verið gerð fyrir lítið sem ekkert fjármagn, er það ekki næg afsökun fyrir að vera ódýr á allan veg. Hún ber höfuðið hátt, rembist eins og hún getur en allan tímann skín í gegn illa skrifaður samtíningur af spjall- og spunasenum sem síðan eru límdar utan um spaugilega vondar klisjur og viðvaningslega umgjörð.

Á meðan á sýningartíma stendur má örugglega finna eins konar sport í því að koma auga á mistök við upptöku, illa hljóðmixaðar senur (pirrandi bergmál í hljóði o.fl.), lélegt flæði í klippingu og fleira í þeim dúr. Það má alltaf bæta upp tæknilega hnökra með innihaldi sem grípur eða gleður, nema hér tekst flestum persónum að tæma allt loftið og fjörið úr salnum frekar snemma.

Eitt sinn sigurvegari, ávallt lúser

Ef velja þyrfti eitt lykilhráefni sem grandar myndinni er það hvernig fólkið á skjánum nær aldrei að finna sína eigin rödd, hvort sem er í samtölum eða í persónusköpun. Þetta einkenndi einnig fyrri verk leikstjórans (Webcam, Snjór og Salóme), þar sem sambærilegur ritstíll, kjaftur og talandi, teygðist yfir á nærri alla karaktera.

Þórhallur Þórhallsson leikur hér ýkta (vona ég) útgáfu af sjálfum sér, eilífðartrúðinn og ólgudólginn Húgó, sem hefur í áraraðir reynt að halda ferli gangandi sem uppistandari. Líf hans hefur orðið stefnulausara og aumkunarverðara með hverju árinu og hann rígheldur í sigurtitil í uppistandskeppni sem hann vann fyrir rúmum áratug.

Kvöld eitt, þegar Húgó stígur af sviðinu eftir hryllilegan performans (þó myndin vilji færa rök fyrir hinu gagnstæða) kynnist hann hinni sautján ára Betu (Sonja Valdin). Hún deilir áhuga Húgós á faginu og biður hann um að leiðbeina sér til að hún geti sjálf unnið uppistandskeppnina sem gæti breytt lífi hennar.

Til að fylla í galtóma og býsna sápuóperulega framvindu dúkka upp óteljandi útgáfur af misskilningi, tökustaðir á sponsi og fjöldinn allur af gesta- og aukaleikurum sem eru aðallega til þess ætlaðir að eiga samræður við Húgó og skýra það út hvernig hann er, hvað hann hugsar og – það sem mikilvægast er – hvað hann er mikill drullusokkur.

Sem aðalpersóna myndarinnar er Húgó ekkert annað en þreytandi og klisjukenndur rasshaus. Þróun hans er flöt, lykilsambandið er gert að eintómri spunakeppni, allt sem líkist mannlegum ágreiningi nær engri átt nema í æfingu í stirðum spuna og sagan hefði grætt mikið á smá persónulegra innliti í uppistandssenuna, frekar en að nota hana sem upphafspunkt til að komast upp með þreytt gredduhjal og enn verri pabbabrandara.

Þórhallur reynir að hnoða úr þessum karakter eitthvað sem hægt er að tengja við og tekst þokkalega að selja það eitt hvað persónan er vonlaus. Þetta er þó hluti af vandamálinu og því trúverðugri sem Húgó nær að vera í túlkun Þórhalls, því fyrr verður það borðliggjandi hvað karakterinn er hrútleiðinlegur, fráhrindandi og sjálfhverfur með öllu og lítið kemur út úr samleik hans við Sonju sem álíka vel hefði tekist að fanga með því að kvikmynda fyrstu leikæfingu – með öll ljósin slökkt.

Alvöru fólk skín í gegn

Sonja er viðkunnanlegri og sterkari persóna í grunninn en Þórhallur, og hefði frekar átt að vera þungamiðja sögunnar. Með betra handriti hefði í það minnsta verið hægt að spila með karakterana sem sérkennilegar hliðstæður en aldrei gefst tími fyrir smáatriði í samspilinu. Eflaust er til betri leið fyrir Sonju að spreyta sig í ríkjandi kvikmyndahlutverki, en hún bætir litlu við persónu sem hefur þó alla burði til þess að skilja eitthvað eftir sig.

Fastagestir Sigurðar Antons eru margir hverjir á sínum stað. Að vísu er Önnu Hafþórsdóttur sóað til þess eins að bregðast við ummælum Húgós og segja honum til syndanna, en hún nær þó að koma inn einhverju smá trúverðugu úr þessum úldnu línum. Það sama má segja um Ísgerði Elfu Gunnarsdóttur, Álfrúnu Örnólfsdóttur og meira að segja Júlí Heiðar Halldórsson.

Þegar allt kemur til alls nær Mentor varla því lágmarks markmiði að kallast boðleg og réttlætir því ekki með neinu móti bíódreifingu og hvað þá á uppsprengdu verði íslenskra kvikmynda.

Fljótfærnisleg útkoma af þessu tagi hjálpar ekki fyrir framtíðarstuðning við íslenskar indí-myndir, eða gerir hugsjóninni amk. lítinn greiða og víkkar staðalinn yfir hvað skal ekki gera. Kannski er eitthvað til í orðum Húgós í myndinni þegar hann segir sjálfur að hæfileikar séu ofmetnir.

Stundum nægir bara að góla.