Peter Sarsgaard og Liev Schreiber eiga nú í viðræðum um að leika á móti Tobey Maguire í myndinni Pawn Sacrifice, eða Peðfórn, sem fjallar um skáksnillinginn sérvitra Bobby Fischer. Fischer er Íslendingum að góðu kunnur en hann bjó hér á landi síðustu æviár sín.
Maguire mun leika Fischer og leikstjóri verður Ed Zwick.
Maguire hefur unnið að því í mörg ár að gera þessa mynd að veruleika, og hafa ýmsir leikstjórar verið nefndir til sögunnar áður en Zwick var ráðinn, þar á meðal David Fincher.
Tökur á myndinni eiga að hefjast í Montreal í Kanada í næsta mánuði. Stephen Knight (Eastern Promises, Dirty Pretty Things) skrifaði handritið.
Fischer varð einskonar poppstjarna eftir að hann varð yngsti stórmeistari sögunnar í skák, og varð einnig þekktur fyrir undarleg bræðisköst og yfirlýsingar.
Hann varð árið 1972, eftir metlanga sigurgöngu, fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að ná alla leið í heimsmeistaraeinvígið í skák þar sem hann mætti hinum ósigrandi Boris Spassky, sem Liev Schreiber leikur. Sargaard mun leika prest sem varð trúnaðarvinur Fischer á þessu tímabili.
Sarsgaard sást nú síðast í mynd Woody Allen, Blue Jasmine. Hann mun næst sjást ásamt Dakota Fanning og Jesse Eisenberg í myndinni Night Moves eftir Kelly Reichardt, sem var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú í september.
Schreiber leikur nú sem stendur í sjónvarpsþáttunum Ray Donovan og leikur einnig í mynd John Turturro, Fading Gigalo, sem einnig var sýnd í Toronto.

