Leikarar og aðrir aðstandendur Star Trek Into Darkness, sem frumsýnd verður þann 17. maí nk. hér á Íslandi, eru nú á kynningarferðalagi um heiminn. Eins og flestir ættu að vita er leikstjóri myndarinnar J.J. Abrams, en hann hefur einnig verið ráðinn til að leikstýra næstu Star Wars mynd, þeirri sjöundu í röðinni. Menn eru því ekki síður áhugasamir að vita meira um þá mynd, þó svo að Abrams hafi hingað til verið þögull sem gröfin um allt er viðkemur Star Wars VII.
Á blaðamannafundi í Berlín í Þýskalandi, sem tekinn var upp og sýndur á TrekMovie.com, og hægt er að sjá hér að neðan, þá upplýsir Abrams að enginn annar en John Williams, höfundur hins fræga Star Wars lags, muni semja tónlistina í Star Wars 7, í staðinn fyrir Michael Giacchino sem Abrams hefur unnið með um árabil. Abrams talar um þetta í kringum mínútu sjö í myndbandinu.
Abrams dásamar snilld Giacchino í myndbandinu, en staðfestir einnig að Williams muni semja tónlistina fyrir Star Wars myndina nýju „af því að hann var þarna löngu á undan mér.“
Of langt mál er að telja upp öll afrek John Williams á sviði kvikmyndatónlistar, en Williams er fimmfaldur Óskarsverðlaunahafi og hefur verið tilnefndur ótal sinnum þar að auki. Hann hefur samið tónlist fyrir allar Star Wars myndirnar, Jaws og fjölda annarra þekktra mynda.
Hér að neðan má sjá Williams stjórna hljómsveitinni the Boston Pops að flytja aðallagið úr Star Wars sem allir ættu að þekkja:

