Óskarsverðlaunaleikkonan Natalie Portman mun leika lafði Macbeth á móti Michael Fassbender í nýrri mynd sem gera á eftir leikriti Williams Shakespeare, Macbeth.
Það var Screendaily vefsíðan sem sagði frá þessu.
Tökur eiga að hefjast síðar á þessu ári.
Samkvæmt fréttinni í ScreenDaily þá hefur Portman lengi haft áhuga á hlutverkinu, og meðal annars íhugað að leika það á sviði. Þegar þetta tækifæri kom upp, og meðleikari hennar í nýjustu mynd Terrence Malick sem fjallar um tónlistarsenuna í Texas í Bandaríkjunum, þ.e. Fassbender, ætlaði að vera með, þá beið hún ekki boðanna.
Justin Kurzel mun leikstýra Macbeth og framleiðendur verða þeir sömu og framleiddu The King´s Speech og Shame ( sem Fassbender lék einmitt aðalhlutverkið í ), See-Saw.
Handrit skrifa þeir Todd Louiso og Jacob Koskoff.
Macbeth fjallar um miskunnarlausan og metnaðargjarnan skoskan lávarð sem nær völdum í Skotlandi með hjálp undirförular eiginkonu sinnar og þriggja norna. Myndin mun gerast á 11. öld og upprunalegur texti Shakespears verður notaður.
Næst fáum við að sjá Natalie Portman í ofurhetjumyndinni Thor: The Dark World, framhaldinu af Thor, og sem stendur er hún við tökur á Jane Got A Gun, en þar er Fassbender einmitt einnig á meðal leikenda.
Macbeth er vinsælt leikúsverk. Nú í vetur var það sýnt í Þjóðleikhúsinu íslenska og var nýverið sett upp í London með X-Men leikaranum James McAvoy í aðalhlutverkinu, en búið er að tilnefna hann til Oliver verðlaunanna bresku fyrir frammistöðuna í hlutverkinu.
Til eru frægar kvikmyndagerðir af verkinu, eins og t.d. útgáfa Roman Polanski frá árinu 1971 og útgáfa Orson Welles frá árinu 1948.


