Kvikmyndasíðan Playlist segir frá því að belgíski leikarinn Matthias Schoenaerts, muni leika ásamt þeim Tom Hardy og Noomi Rapace í myndinni Animal Rescue, sem við höfum sagt frá áður hér á síðunni .
Schoenaerts vann nú um helgina Cesar verðlaunin frönsku sem besti nýliðinn fyrir leik sinn í myndinni Rust & Bone, sem sýnd var á franskri kvikmyndahátíð hér á landi nú í byrjun ársins. Schoenaerts leikur einnig í Death Of A Shadow sem er tilnefnd til Óskarsverðlaunanna sem afhent verða í kvöld.
Leikarinn sló í gegn í myndinni Bullhead, en leikstjóri hennar er einmitt Michael Roskam, sem þreytir frumraun sína sem leikstjóri í Bandaríkjunum í myndinni Animal Rescue.
Animal Rescue er byggð á smásögu eftir Dennis Lehane (Mystic River, Gone Baby Gone) og gerist í Boston, en í myndinni verður sögusviðinu breytt í New York. Myndin fjallar um barþjón sem Hardy leikur, sem lendir í vandræðum eftir að hann bjargar særðum hundi, bæði lendir hann í útistöðum við ruddalegan eiganda hundsins en einnig glæpamanninn yfirmann sinn.
Rapace leikur Nadia, konu sem er með ör þvert yfir hálsinn sem hittir Hardy þegar hann finnur hundinn fyrir utan heimili hennar.
Ekki er enn vitað hvaða hlutverk Schoenaerts mun leika í myndinni.


