Seth MacFarlane, skemmtikraftur og höfundur teiknimyndanna Family Guy, verður kynnir á næstu Óskarsverðlaunahátíð.
Framleiðendur hátíðarinnar, þeir Craig Zadan og Neil Meron sendu frá sér tilkynningu um valið í gær og segjast vera himinlifandi með að hafa landað MacFarlane sem kynni.
„Hæfileikar hans á sviði passa fullkomlega við hugmyndir okkar um að gera hátíðina skemmtilega og ferska,“ segja framleiðendurnir í tilkynningunni.
MacFarlane er best þekktur fyrir teiknimyndaseríurnar Family Guy og American Dad. Hann þreytti frumraun sína á hvíta tjaldinu með myndinni Ted sem var frumsýnd fyrr á þessu ári, en Ted gekk mjög vel og þénaði 420 milljónir Bandaríkjadala.
MacFarlane, sem er 38 ára gamall, var einnig kynnir fyrsta þáttar vetrarins af grínþáttunum Saturday Night Live í síðasta mánuði. Þetta er í fyrsta skipti sem hann kynnir á Óskarshátíðinni.
Tilnefningar til Óskarsverðlana verða kynntar þann 10. janúar nk. sem er næstum því viku fyrr en verið hefur, og á undan Golden Globe verðlaunahátíðinni.
Óskarsverðlaunahátíðin verður þann 24. febrúar í Kodak höllinni í Los Angeles.

