Róleg byrjun hjá Palin, en framleiðendur ánægðir

Eins og við sögðum frá hér á síðunni í síðustu viku þá var ný heimildamynd um fyrrum varaforsetaefnið Söruh Palin, The Undefeated, á meðal þeirra mynda sem frumsýndar voru um síðustu helgi í Bandaríkjunum.
Myndin byrjaði rólega, samkvæmt frétt frá TheWrap, en hún var frumsýnd í 10 sýningarsölum. Tekjur af sýningu myndarinnar um helgina voru á bilinu 65-75 þúsund Bandaríkjadalir.

Þrátt fyrir rólega byrjun þá er framleiðandinn, ARC Entertainment, kokhraustur, og segir að byrjunin hafi verið góð, og meðal annars hafi verið uppselt á nokkrar sýningar.

„Við erum gríðarlega ánægð með viðtökur áhorfenda, sem hafa verið yfir sig ánægðir og sýnt ástríðufull viðbrögð, þar á meðal staðið upp og klappað á flestum sýningum,“ sagði forstjóri ARC, Trevor Drinkwater.
„Við búumst við að myndin spyrjist vel út og við ætlum okkur að sýna hana mun víðar…..við undirbjuggum frumsýninguna aðeins í þrjár vikur, og auglýstum næstum ekki neitt, þannig að það má segja að myndin hafi fengið fljúgandi start.“

Myndin er skrifuð og er leikstýrt af íhaldsmanninum og kvikmyndagerðarmanninum Stephen Bannon, og inniheldur ummæli og viðtöl við fólk á hægri væng stjórnmálanna í Bandaríkjunum, og segir frá uppgangi Palin frá því að vera einföld „hokkí mamma“ í það að verða varaforsetaefni í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Þess á milli var hún ríkisstjóri um tíma í Alaska.

Myndin er sögð vera með glaðlegu og jákvæðu yfirbragði, sem er stíll sem framleiðendur segja að leiðandi fjölmiðlar afneiti sem frásagnarmáta.