Á morgun, 25. júní, er alþjóðlegi Strumpadagurinn og er hann haldinn hátíðlegur um allan heim með ýmsum hætti. Belgíski teiknimyndasöguhöfundurinn Pierre Culliford, skapari Strumpanna og betur þekktur sem Peyo, var fæddur þennan dag árið 1928 og hefði orðið 83 ára hefði hann lifað. Peyo lést í Brussel árið árið 1992, þá 64 ára gamall.
Samstillt átak tæplega 30 þjóða verður til þess að núverandi heimsmet yfir flesta einstaklinga uppáklæddir sem Strumpar í einu, verður slegið með stæl, að því er fullyrt er í fréttatilkynningu frá Senu. Raunar er markmið aðstandenda að rústa metinu.
Til að slá metið þurfa að minnsta kosti 2.510 manns um allan heim að klæða sig í Strumpabúning, samkvæmt kúnstarinnar reglum. Líkamsmálningin þarf að vera rétti Strumpablái liturinn, en hann ku vera „Pantone #32“.
Útsendarar frá Heimsmetabók Guinnes verða á hverjum stað og munu tryggja að öll skilyrði séu uppfyllt.
Löndin sem taka þátt í að rústa heimsmetinu eru eftirfarandi: Bandaríkin, Belgía, Argentína, Bólivía, Brasilía, Kólumbía, Frakkland, Ekvadór, Þýskaland, Grikkland, Írland, Mexíkó, Holland, Panama, Perú, Pólland, Rússland, Úrúgvæ, Venezuela, England, Ástralía og Ítalía.
Ljósmyndum frá öllum löndum verður póstað á heimasíðuna globalsmurfsday.com um leið og þær berast á laugardaginn. Lokatölur ættu að liggja fyrir seinnipart dags.
Strumpadagurinn á Íslandi
Afþreyingarfyrirtækið Sena, dreifingaraðili Strumpamyndarinnar á Íslandi, tekur þátt í deginum í samstarfi við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Heppnir gestir garðsins á laugardaginn fá boðsmiða á myndina. Boðið fer fram með nýstárlegum hætti en fjöldinn allur af Strumpastyttum mun dúkka upp víðsvegar um Húsdýragarðinn á laugardaginn með áföstum miða sem tryggir þeim sem finnur styttuna aðgang fyrir tvo á myndina.
Að auki gildir „sá á Strump sem finnur“ reglan, sem þýðir að sá sem finnur Strumpastyttu má eiga hana. Stytturnar verða misvel faldar þannig að það þarf að hafa mismikið fyrir því að finna þær. Einhverjar verða á bekkjum, borðum og á göngustígum en aðrar á bakvið runna, í leiktækjum eða uppi í tré.
MEÐAL ÞESS SEM Í BOÐI VERÐUR Á LAUGARDAGINN:
· Öll börn fá ókeypis Strumpaópal á Kaffihúsi garðsins á meðan birgðir endast.
· Ókeypis andlitsmálun í anda Strumpana fyrir alla.
· Emmes blandar sérstaklega í tilefni dagsins Strumpabláan rjómaís, og verður hægt að fá Strumpaís í brauðformi á Sérstöku Strumpatilboði.
· Einnig verður sértilboð á Strumpabláu Candyfloss.
· Strumpaklæddir starfsmenn Ölgerðar Egils Skallagrímssonar ganga um garðinn með ókeypis Strumpa Doritos fyrir alla á meðan birgðir endast.
· Tveggja metra hár „Alvöru Strumpur“ bregður á leik og situr fyrir á myndum með börnunum.
„Við hvetjum því alla til að strumpa sér í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn á laugardaginn kemur. Hátíðarhöldin hefjast klukkan 10:00 og standa yfir til klukkan 18:00. Og munið… að ef þið eruð góð, þá sjáið þið ef til vill Strumpunum bregða fyrir,“ segir í tilkynningu Senu.
Strumpaþorp!
Kvikmyndafyrirtækið Sony, sem framleiðir myndina langaði í tilefni dagsins að búa til alvöru Strumpaþorp. Kvikmyndaframleiðendurnir leituðu um allan heim að rétta staðnum og fundu lítið þorp sem heitir Júzcar í Genal dalnum í Malaga héraðinu á Spáni, sem passaði fullkomlega við hugmyndir þeirra um alvöru Strumpaþorp.
Júzcar er þekkt sem eitt af hinum Andalúsísku „hvítu þorpum“, en hefur nú horfið frá þeirri ímynd, að minnsta kosti um hríð. Þorpið er nú alþakið blárri málningu og eru íbúar þess alvarlega að íhuga að halda litnum á húsum þorpsins til langframa. Sony hefur þó heitið því að koma öllu aftur í fyrra horf eftir frumsýningu myndarinnar. Heimikil dagskrá og allskyns viðburðir verða í þorpinu tengdir frumsýningu myndarinnar og eru öll hótel á svæðinu að verða yfirfull vegna áhuga ferðamanna á þessari nýstárlegu andlitslyftingu sem þorpið hefur fengið. Meðal annars munu fjölmörg börn þorpsins klæða sig og mála sem litlir Strumpar og Strympur.
Nýja Strumpamyndin verður heimsfrumsýnd í þrívídd 10. ágúst á Íslandi og skartar Ladda sem Kjartani Galdrakarli en raddir Strumpanna verða meðal annars í höndum Ævars Þórs Benediktssonar, Atla Rafns Sigurðarsonar, Þrastar Leós Gunnarssonar og Kjartans Guðjónssonar. Þá mun poppdívan Jóhanna Guðrún ljá Strympu rödd sína.