Franska kvikmyndahátíðin 2011 verður haldin dagana 21. janúar til 3. febrúar næstkomandi í Háskólabíói í Reykjavík og í Borgarbíói á Akureyri dagana 12. til 16. febrúar.
Í fréttatilkynningu segir að franskar kvikmyndir hafi markað djúp spor í menningararfleið síðustu áratuga, séu í stöðugri framþróun og njóti mikilla vinsælda í Frakklandi og á alþjóðlegum vettvangi. „Gríðarleg fjölbreytni, gróska og frumleiki einkenna franska kvikmyndagerð nú um stundir og franskar kvikmyndahátíðir eru tíðir viðburðir um allan heim,“ segir í tilkynningunni.
Hátíðin er nú haldin á Íslandi í ellefta sinn. Franska sendiráðið, Alliance Française og kanadíska sendiráðið standa að hátíðinni í samvinnu við Háskólabíó og Græna ljósið. „Hátíðin er merkur þáttur í að efla menningartengsl Íslands og Frakklands og hún er að auki fyrsti liðurinn í einstakri afmælisdagskrá Alliance Française á Íslandi, en félagið fagnar 100 ára afmæli á þessu ári.“
Að því er fram kemur í tilkynningunni verða frumsýndar 10 vandaðar kvikmyndir. „Opnunarmynd hátíðarinnar „Bara húsmóðir“ er splunkuný gamanmynd sem skartar stórleikurunum Catherine Deneuve og Gérard Depardieu í aðalhlutverki. Nokkur þemu verða á hátíðinni að þessu sinni. Kvikmyndirnar „Velkomin“, „Eins og hinir“, „Stúlkan í lestinni“ og kanadíska kvikmyndin „Lífslöngun“ fjalla um málefni minnihlutahópa, ýmist í gríni eða alvöru. „Leyndarmál“ og „Hvítar lygar“ fjalla um ástir, lygar og margbreytileika mannlegra samskipta. „Skrifstofur Guðs“ er mynd sem fjallar um félagsmál og tilvonandi mæður með frumlegum hætti. Ævintýrið er í öndvegi í „Adèle Blanc-Sec“, en þessi nýjasta mynd leikstjórans Luc Besson byggir á vinsælum teiknimyndasögum eftir Jacques Tardi. Loks má nefna hina sögufrægu mynd „Lafmóður“ frá 1960 eftir Jean-Luc Godard þar sem franska nýbylgjan ræður ríkjum.
Allar kvikmyndirnar eru með enskum texta, fyrir utan „Ævintýri Adèle Blanc-Sec“ og „Hvítar lygar“ sem eru með íslenskum texta.“
Hér má finna upplýsingar um myndirnar sem sýndar verða.
Nú er bara að að drífa sig í bíó og sjá sem flestar af þessum myndum.

