Mario Monicelli framdi sjálfsmorð – 95 ára

Ítalski kvikmyndaleikstjórinn Mario Monicelli framdi sjálfsmorð sl. mánudag með því að stökkva út um glugga á spítala. Hann var 95 ára gamall.
Monicelli stökk út um glugga á San Giovanni spítalanum í Róm, en þar gekkst hann undir meðferð við krabbameini í blöðruhálskirtli.
„Ég hræðist ekki dauðann, hann fer í taugarnar á mér. Það fer í taugarnar á mér til dæmis að einhver geti verið hér á morgun, en ekki ég. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að vera ekki á lífi, ekki að vera dauður,“ sagði hann árið 2007 í viðtali við tímaritið Vanity Fair.
Monicelli varð frægur fyrir myndir eins og Amici Mei ( My Dear Friends ), sem talin er vera fremst í flokki gamanmynda í ítölskum stíl, og er jafnfram ein hans besta mynd.
Aðrar þekktar myndir leikstjórans eru Big Deal on Madonna Street frá árinu 1958, með Marcello Mastroianni og Claudia Cardinale í aðalhlutverkum, og La Granda Guerra (The Great War“) ári síðar.

Hann vann Gullna ljónið í Feneyjum fyrir síðastnefndu myndina og fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Monicelli fæddist árið 1915 í Viareggio í Tuscany á Ítalíu, og vann einnig í leikhúsi og í sjónvarpi. Hann leikstýrði alls 65 kvikmyndum.
Leikstjórinn var einnig þekktur vinstrisinni og var gagnrýninn á efnishyggju sem honum fannst kristallast í stjórnarháttum Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu.