1,5 milljarður í aðgangseyri 2009 – Avatar stærst

Árið 2009 voru seldir 1.690.310.- miðar fyrir 1.418.162.965.- krónur í kvikmyndahús á Íslandi að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá SMÁÍS.

„Þetta er frábær niðurstaða og er árið 2009 það stærsta í sögunni hér á landi þar sem aðsókn hefur aukist um 7% og heildartekjur um 12% frá 2008.
Lokaspretturinn í ár var æsispennandi og var það ekki fyrr en á síðustu sýningu á síðasta degi ársins þar sem Avatar náði topp sætinu af The Hangover, sem hafði verið stærsta mynd ársins fram af því og er reyndar en sú sem flestir fóru að sjá 2009. Munurinn í lok árs var aðeins 33.318.- krónur.
Þetta er stórkostlegur árangur hjá Avatar, sem var aðeins í 10 daga í sýningu á árinu.

Íslenskar myndir eru eins og í fyrra 3 inná topp 20 og nær Jóhannes þeim heiðri að vera stærsta Íslenska myndin á árinu en næst kemur Bjarnfreðarson, sem er enn í sýningu, og svo Algjör Sveppi og leitin að Villa
Hlutdeild Íslenskra mynda var rúmlega 10% sem er svipað og árið áður og sýnir að íslenskar myndir eru að halda sinni hlutdeild á markaðinum.
Það vekur líka athygli að sjá 2 myndir með sænsku tali inná topp 20, Män som hatar kvinnor og Flickan som lekte med elden, þar sem afa sjaldgæft er að sjá myndir sem ekki eru með ensku eða íslensku tali svo hátt á listanum,“ segir í fréttinni frá SMÁÍS.

Hér má sjá lista aðsóknarmestu mynda ársins á íslandi.

Duglegastir miðað við höfðatölu

„Það er vissulega frábært að sjá hvað Íslendingar hafa verið duglegir að fara í bíó árið 2009 og eru enn allra þjóða duglegastir við komur í kvikmyndahús miðað við höfðatölu. Hvergi í heiminum er að finna jafn hátt hlutfall af kvikmyndahúsum sem bjóða alltaf uppá það allra besta sem býðst í nýjustu tækni og þægindum hvort sem um er að ræða sýningarvélar með 3-D, hljóðgæði eða þægileg sæti.
Ofan á allt þetta er Ísland með ódýrustu löndum, af þeim sem við gjarnan berum okkur saman við, hvað miðaverð varðar en samkvæmt tölum frá Bandaríkjunum þá er meðalverð á miða þar í landi 7,18 USD sem gera u.þ.b 898.-krónur á genginu í dag. Hér á Íslandi er meðalverð á bíómiða 839.- krónur , fyrir árið 2009,sem er þó nokkuð lægra en í Bandaríkjunum.  
Árið 2010 verður frábært ár fyrir Íslendinga til að kíkja í næsta kvikmyndahús og njóta gæða eins og þau gerast best í heiminum á betra verði en gerist í nágranalöndunum,“ segir að lokum í frétt SMÁÍS.