Gagnrýni: Málmhaus

malmhausNýjasta kvikmynd Ragnars Bragasonar, Málmhaus, var sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto fyrr í mánuðinum og uppskar mikla athygli. Myndin, sem fjallar um fjölskyldu í sorg á sveitabýli úti á landi verður sýnd almenningi á Íslandi þann 11. október næstkomandi.

Kvikmyndir.is fór á sérstaka fjölmiðlasýningu í Smárabíói. Leikstjórinn Ragnar Bragason var á staðnum og kynnti verk sitt fyrir vidstöddum. Í kjölfarið var myndin sýnd.

Þeir sem hafa leitað til skjóls í tónlist ættu að geta fundið sig með aðalpersónu myndarinnar, Heru, sem leitar í huggun þungarokksins. Tónlistin minnir hana á bróður sinn sem lést af slysförum þegar Hera var aðeins 12 ára. Sorgin og reiðin verða henni oft að falli og hún á erfitt með að tengjast samfélaginu sem hún býr í og fólkinu sem býr í því. Samfélagið hefur engan grundvöll fyrir tilfinningar hennar né tónlistarsmekk. Vinir hennar hafa farið aðrar leiðir í lífinu. Á meðan stendur hún í stað og þorir ekki burt.

Foreldrar Heru glíma einnig við sorgina, en á annan hátt. Þau glíma við sorgina í þögninni. Hvað gefur það af sér að tala um þennan atburð? Herbergið hjá látnum syni þeirra er eins og hann skildi við það á dánardaginn, það má ekki hreyfa við neinu í þessari kapellu sem herbergið er orðið. Það liggur lítil vonarglæta yfir myndinni að sorgin sé ekki eilífð og til þess þarf fjölskyldan að takast á við hana fyrir fullt og allt.

Handritið er fullt af fjölbreyttum persónum, líkt og handritshöfundi einum er lagið. Persónusköpun Ragnars og tengingar á milli persóna eru til fyrirmyndar. Ólíkustu manneskjur tengjast böndum og persónurnar eru ekki einhliða, þær eru marghliða, líkt og við öll. Persónurnar koma manni sífellt á óvart og eiga það til að koma manni í opna skjöldu. Sagan er vel skrifuð og sýnir á trúverðugan hátt hvernig Hera og fjölskylda hennar glíma við sorgina á sinn hátt, hvernig samfélagið bregst við og hvort tíminn lækni sár eður ei.

metalhead2

Kvikmyndatakan hefði mátti vera hrárri og í takt við anda myndarinnar. Það sló mig að hún hafi verið svo fíngerð og afslöppuð. Andrúmsloftið var ekki afslappað, það var rokkandi og útatað í tilfinningum. Hvar var rokkið í kvikmyndatökunni? Hvar var rokkið í myndvinnslunni?

Aðalleikkona myndarinnar, Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir, stendur sig vel í hlutverki sínu og nær tengingu við margar tilfinningar sem eiga sér stað í persónunni sem hún leikur. Hlutverkið er ekki einfalt því undir farðanum og rokkinu er aðeins lítil stelpa sem syrgir bróður sinn. Ingvar E. Sigurðsson er trúverðugur í hlutverki sínu sem þögull faðir, sem felur tilfinningar sínar og þorir ekki að eiga við þær, líkt og konan hans, sem er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur. Sveinn Ólafur Gunnarsson á líka hrós skilið í hlutverki prestsins í sveitinni.

Leikararnir eru í öruggum höndum Ragnars Bragasonar og engu er ofaukið. Það eru öllu haldið á jörðinni og persónunum gefið líf í gegnum gjörðir og líkamlega tjáningu í stað fyrir samræður.

Málmhaus er kvikmynd sem snertir djúpt við manni, hún gefur manni von að fólk í sorg eigi möguleika á því að komast yfir hana. Vel leikin og vel leikstýrð. Kvikmyndatakan hefði mátt vera í takt við aðalpersónu og söguþráð.

Einkunn: 4/5