Xander snýr aftur 20. janúar

vin dieselAðdáendur Xander Cage, og myndarinnar xXx, þar sem Vin Diesel fór með hlutverk Cage, geta byrjað að láta sig hlakka til því Paramount kvikmyndaverið hefur ákveðið frumsýningardag fyrir framhald myndarinnar, xXx3: The Return of Xander Cage.

Myndin verður frumsýnd 20. janúar nk.

Þetta verður í fyrsta sinn sem Diesel fer með hlutverk Xander frá því í upprunalegu myndinni, sem frumsýnd var árið 2002, en Xander Cage er jaðaríþróttamaður sem er kúgaður til að verða leyniþjónustumaður.

Vin Diesel var fjarri góðu gamni í xXx: State Of The Union frá árinu 2005, þar sem Ice Cube lék aðalhlutverkið.

Í þessari nýju mynd kemur Cage heim úr útlegð til að berjast við ofurþorparann Xiang, sem leitar að nýju ofurvopni sem gengur undir nafninu Pandora´s Box.

Óljóst er hvort að Cube mæti aftur til leiks.  Donnie Yen fer með hlutverk Xiang.