World War Z – Ný stikla

Ný stikla er komin fyrir uppvakningatryllinn World War Z með Brad Pitt í aðalhlutverkinu.  Stiklan er nokkuð frábrugðin fyrri stiklu, en þessi nýja stikla byrjar á því að Pitt og fjölskylda eru að vakna í rólegheitum heima hjá sér og sjá í sjónvarpinu að eitthvað skrýtið er í gangi þar sem þau sitja við morgunverðarborðið.

Brad Pitt leikur í myndinni sérfræðing hjá Sameinuðu þjóðunum sem þarf að hjálpa til við að ráða niðurlögum alþjóðlegs uppvakningafaraldurs sem er að leggja heimsbyggðina í rúst.

Í fyrstu stiklunni sáum við uppvakninga í þúsunda tali, fullt af sprengingum og myndir af Brad Pitt á flótta undan hættu, en þessi stikla gefur smá meiri innsýn í persónulegar aðstæður hans og fjölskyldulíf.

„Pabbi, hvað eru herlög?“ spyr dóttir hans í sakleysi sínu við morgunverðarborðið í byrjun stiklunnar þegar frétt um yfirvofandi heimsendi er í sjónvarpinu.

Sjáðu stikluna hér að neðan:

Eins og sést í stiklunni þá verður fljótlega allt snarbrjálað og Pitt þarf að yfirgefa fjölskylduna til að vernda mannkynið frá útrýmingu. Hann fer í hættulega ferð til að reyna að finna lækningu við uppvakningafaraldrinum og miðað við það sem kemur fram í stiklunni þarf hann að komast til Rússlands „Ég held að þessar verur hafi veikleika,“ segir hann í stiklunni.

World War Z er byggð á skáldsögu eftir Max Brooks og hefur verið mörg ár í vinnslu.

Hægt er að smella hér til að lesa meira um tilurð myndarinnar.

World War Z verður frumsýnd 21. júní í Bandaríkjunum en 12. júlí hér á Íslandi.