Wonder Woman 3 í bígerð

Framleiðsla á þriðju kvikmyndinni um Wonder Woman er þegar hafin og mæta þær Gal Gadot og Patty Jenkins leikstjóri aftur til leiks til að klára þríleikinn.

Kvikmyndaverið Warner Bros. tilkynnti þetta um leið og aðsókn og áhorfstölur streymdu inn fyrir Wonder Woman 1984. Myndin var frumsýnd víða um heim í kvikmyndahúsum á dögunum og lenti á streymisþjónustunni HBO Max á jóladag. Framhaldsmyndin halaði inn 85 milljónum dollara á heimsvísu með bíóaðsókninni einni.

Upprunalega myndin frá 2017 sópaði til sín góðu lofi gagnrýnenda og áhorfenda auk þess að hala inn rúmar 820 milljónir Bandaríkjadala á heimsvísu. WW84 hefur hlotið heldur blendnar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda en ljóst er að myndin hefur verið á vörum margra yfir hátíðirnar.

Má þess geta að Wonder Woman (Gadot) mun einnig bregða fyrir á næsta ári í svonefnda Zack Snyder-klippi kvikmyndarinnar Justice League, en það er auðvitað HBO Max sem stendur að þeirri útgáfu.