Hugh Jackman vill að hetjurnar í X-Men og The Avengers etji kappi hver við aðra. Til þess að það geti gerst þurfa kvikmyndaverin Marvel Studios (The Avengers) og 20th Century Fox (X-Men) helst að sameinast.
„Eitt af því frábæra við þessa mynd [The Wolverine] er að margt fólk frá Marvel er hérna og það virðist taka meira þátt í þessu en áður,“ sagði Jackman við Screen Rant. „Ég veit ekki hvað er að gerast á bak við tjöldin en mér finnst þetta magnað. Ég var einmitt að spyrja um daginn hvers vegna þessi fyrirtæki sameinast ekki,“ sagði hann.
„Ég væri til í að etja kappi við Robert Downey Jr. og Iron Man og lemja hann í klessu. Það væri frábært.“
Marvel og 29th Century Fox deila þessa dagana um hvort þeirra eigi og megi nota persónurnar Scarlet Witch og Quicksilver, börn Magneto úr X-Men. Þau birtust fyrst í X-Men en hafa verið mikilvægur hluti af The Avengers síðastliðin ár.
The Wolverine er væntanleg í bíó í lok júlí.