Warner Bros. fagna 90 ára afmælinu

Reyndar ekki fyrr en þann 4. apríl á næsta ári, en fyrirtækið er þó að gíra sig upp fyrir hátíðarhöldin með því að gefa út áætlun þeirra yfir útgáfu mynda sinna á DVD og Blu-ray út árið 2013. Hún er stútfull af myndum sem hafa aldrei áður verið séðar á Blu-ray, gríðarstórum samansöfnum og afmælisútgáfum. Dembum okkur í þetta!

Fyrsti hluti ársins byrjar með spreng þar sem Warner henda frá sér söfnum sem vega eflaust tonn: 100 af þeirra bestu myndum saman í pakka á DVD og síðan 50 vel valdar á Blu-ray. Óskarsvinningshafarnir fá svo athygli með bæði 20 viðtökundum Bestu Myndarinnar og Besta Söngleikjarins á DVD.
Teiknimyndarisinn gamli Hanna-Barbera fær safn af sínu albesta þáttaefni sem inniheldur m.a. The Flinstones, Scooby-Doo Where are You!, Top Cat, The Jetsons og The Smurfs.
Myndirnar The Jazz Singer, Driving Miss Daisy, Grand Hotel, Mrs. Miniver og Cabaret sjá síðan dagsins ljós í fyrsta skiptið á Blu-ray.

Annar hluti ársins hefst með glæsilega ferli Clint Eastwood, en DVD-útgáfa safnsins inniheldur 40 myndir, á meðan Blu-ray-útgáfan er með 20. James Dean fetar í sömu spor með sínu safni sem verður eingöngu á Blu-ray. Ekki langt frá er næsti pakkinn frá Warner sem nefnist Ultimate Gangsters og mun hann koma í tveimur bindum.
Þættirnir goðsagnakenndu Looney Tunes sýna það besta sem þeir hafa upp á að bjóða í einum pakka, á meðan fleiri en ein sjónvarpsholdgun Supermans koma saman undir sama þakinu. Í boði verða valdir þætti hinna upprunalegu Adventures of Superman, Lois & Clark: The New Adventures of Superman, Superman – The Animated Series og Smallville.
Að lokum kemur Mad Max þríleikurinn á Blu-ray og Enter the Dragon fagnar 40 ára afmælinu.

Þriðji hluti ársins sér útgáfu pakka sem eflaust margir hafa beðið eftir: Dark Knight þríleikurinn. Innifalið verður aragrúi af áður óséðu efni, en ekki Director’s Cut útgáfan af Dark Knight Rises sem aðdáendur vonuðu svo heitt að væri til. Á hinn bóginn fáum við það besta frá gömlu teiknimyndaþáttum DC Comics, sem klárar þá „Best of“ söfn Warner yfir teiknimyndagoðin sem sitja undir þeim.
Danny Ocean og co. sameinast aftur í Ocean’s safninu, en það felur aðeins í sér þríleik Steven Soderberghs og skilur eftir upprunalegu myndina frá 1960.
Hrollvekjurnar House of Wax og The Exorcist fá upplyftingu með 40 ára afmælisútgáfu Exorcist, útgáfa sem þú HEFUR pottþétt séð (DVD brandari, ekki dæma), og þrívíddar Blu-ray útgáfu House of Wax. Athugið að þetta er 1953 Vincent Price myndin, þannig að þeir fáu sem dreymdu um Paris Hilton í þrívídd geta hætt því.

Til að klára árið eiga þrjár þekktar myndir afmæli: The Wizard of Oz verður 75 ára og kemur út í 3D, á meðan The Right Stuff og A Christmas Story verða þrítugar.
Síðan, það sem flestum gæti þótt áhugaverðast, kemur Extended Edition af The Hobbit: An Unexpected Journey. Þótt ótrúlegt sé virðist það sem að Peter Jackson eigi ennþá nóg af myndefni, þrátt fyrir að Hobbita-myndirnar séu núna þrjár, en útgáfan ætti að koma rétt á undan bíógöngu framhaldsins The Desolation of Smaug.

Ég vil óska Warner Bros. ótímabært til hamingju með stórafmælið og vonandi staldrar fyrirtækið við í önnur 90 ár!