Vinátta getur komið úr óvæntri átt

Teiknimyndin Alan litli, sem kemur í bíó í dag, er byggð á vinsælli danskri barnabók eftir leikarana og handritshöfundana Peter Frödin og Line Knuutzon.

Alan samþykkir að vera mannlegt loftnet.

Alan litli er ellefu ára og er nýfluttur með pabba sínum í blokkaríbúð á Amager, en pabbi hans og mamma standa í skilnaði. Sumarfríið er langt og einmanalegt fyrir drenginn, sem er ómannblendinn, þangað til að hann samþykkir að vera mannlegt loftnet fyrir nágranna sinn, Helge, sem er heltekinn af fljúgandi furðuhlutum.

Geimvera lendir í nágrenninu

Þegar geimveran Majken, sem getur lesið hugsanir, lendir í nágrenninu myndast óvænt vináttusamband milli hennar og Alans. Brjálaður safnari hefur hins vegar komið auga á Majken og vill klófesta hana. Alan litli og Majken, ásamt Helge, verða að beita öllum sínum ráðum til að tryggja að Majken falli ekki í hendur safnarans sem einsetur sér að ná henni.

Horft upp til stjarnanna.

Vildi halda tryggð við bókina

Leikstjórinn, Amalie Næsby Fick segist strax hafa fengið áhuga á að færa söguna á hvíta tjaldið er hún las bók Frödins og Knutsons þegar hún var í námi í teiknimyndagerð við Danska kvikmyndaskólann. Hún segir að hennar sýn hafi gengið út á að halda tryggð við söguna og frásögnina í bókinni, standa vörð um söguþráðinn og koma því vel til skila hvernig það er fyrir barn að upplifa skilnað og það rask sem hann veldur í lífi þess.

Fróðleikur:

Meðal þeirra sem ljá persónum myndarinnar rödd eru Peter Frödin, Jesper Christensen (sem lék Mr. White í Bond-myndunum Spectre, Casino Royale og Quantum of Solace), Louis NæssSchmidt (The Chestnut Man og Checkered Ninja)og Sofie Torp (Daniel og The Marco Effect).

Aðalhlutverk í íslensku talsettu útgáfunni: Hjálmar Hjálmarsson, Andrea Ösp Karlsdóttir, Þórhallur Sigurðsson (Laddi), Steinn Ármann Magnússon, Stefanía Svavarsdóttir og Hlynur Atli Harðarson.
Handrit: Matthías Kristjánsson þýddi.

Leikstjóri: Tómas Freyr Hjaltason leikstýrði íslensku útgáfunni.