Vilja enga höfrunga í Anchorman 2

Dýraverndunarsamtökin PETA hafa skorað á framleiðendur gamanmyndarinnar Anchorman 2: The Legend Continues að klippa út öll atriði sem voru tekin upp með höfrungum í Sea World í San Diego.

ANCHORMAN 2:  THE LEGEND CONTINUES

Anchorman 2 er væntanleg í bíó vestanhafs 20. desember.

„Sú illa meðferð sem sjávarspendýr fá í Sea World á betur við hryllingsmynd heldur en gamanmynd,“ sagði í yfirlýsingu frá PETA og var birt í USA Today. „PETA skorar á höfunda Anchorman að skilja öll atriðin úr Sea World eftir á klippiborðinu, þar sem þau eiga heima.“

Fréttaþulurinn Ron Burgundy, sem Will Ferrell túlkar, notaði frasann „Stay classy San Diego“ óspart í Anchorman: The Legend of Ron Burgundy. Í nýju myndinni er hann hættur sem fréttaþulur og byrjaður að vinna sem kynnir í Sea World. Höfrungar sjást stuttlega í stiklu myndarinnar.