Vegna velgengni myndanna tveggja um járnmanninn, Iron Man, þá er að sjálfsögðu byrjað að undirbúa þá þriðju sem á að frumsýna árið 2012.
Tímaritið Worst Previews segir frá því að Marvel menn vilji ólmir fá Emily Blunt í leikaraliðið í Iron Man 3, en Emily lék til dæmis aðstoðarkonu Meryl Streep í myndinni The Devil Wears Prada.
Blunt er þó greinilega ekkert of æst í að vinna fyrir Marvel og hefur hafnað því í tvígang að leika í myndum teiknimyndasögufyrirtækisins. Fyrst hafnaði hún hlutverki sem Black Widow í Iron Man 2, og síðan hlutverki Peggy Carter í Captain America: The First Avenger.
Nú á hún þó í viðræðum við fyrirtækið um að leika illmenni í Iron Man 3.
Í frétt blaðsins er þess einnig getið að Gwyneth Paltrow verði áfram í hlutverki aðstoðarkonu járnmannsins, Pepper.