Vergjörn kona fær Umu

Bandaríska leikkonan Uma Thurman hefur bæst í leikarahóp nýjustu myndar danska leikstjórans Lars von Trier, Nymphomaniac,  eða Sjúklega vergjörn kona, samkvæmt frétt Hollywood Reporter fréttamiðilsins.

Myndin er sögð verða klámfengin.

Uma, sem meðal annars er þekkt fyrir leik sinn í Kill Bill tvíleiknum, er þar með komin í hóp með leikurunum Charlotte Gainsbourg, Stellan Skarsgård, Shia LaBeouf, Jamie Bell, Stacy Martin, Connie Nielsen og Christian Slater.  Tökur á myndinni fara nú fram í Köln í Þýskalandi.

Samkvæmt fréttinni áætlar Von Trier að gera bæði harða og mjúka útgáfu af myndinni ( hardcore and softcore ), en í þeirri hörðu myndu vera alvöru kynlífsatriði.

Óvíst er hvaða hlutverk Uma mun leika, en þetta verður í fyrsta sinn sem hún leikur undir stjórn Von Triers, sem þekktur er fyrir myndir eins og Dogville, Melancholia og Antichrist.

Aðalkvenhlutverk myndarinnar er leikið af Gainsbourg sem leikur Joe, miðaldra kynlífssjúkling sem segir eldri piparsveini alla kynlífssögu sína, eftir að hann finnur hana barða og illa á sig komna í húsasundi.  Slater leikur föður Joe, sem hún sér einungis í endurliti aftur í tímann.

Nymphomaniac er nú þegar sögð vera umdeildasta mynd Von Triers, og er þó samkeppnin nokkuð hörð. Ummæli meðframleiðanda Von Trier, Peter Aalbæk Jensen, vöktu til að mynda athygli á síðasta ári þegar hann sagði um Nymphomaniac: „Lars vill sjá stúlku verða kynferðlislega æsta [ á skjánum ] “

Myndin verður frumsýnd á næsta ári, en líkur eru á að hún verði frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni næsta vor.