Vaughn og Ferrell keppa um ástir dætranna

Bandaríski leikarinn Vince Vaughn mun leika á móti Will Ferrell í myndinni Daddy´s Home, samkvæmt vefsíðunni The Hollywood Reporter.

Í myndinni, sem leikstýrt verður af Etan Cohen, leikur Ferrell mjúkan mann, sem á tvær stjúpdætur, og reynir hvað hann getur til að vera besti stjúpfaðir í heimi. Allt fer hinsvegar upp í loft þegar blóðfaðir stúlknanna tveggja, kemur aftur inn í líf þeirra og neyðir persónu Ferrell til að keppa við sig um ást stúlknanna.

Handrit myndarinnar skrifaði Brian Burns og Adam McKay & Chris Henchy, ásamt Cohen sjálfum.

Tökur myndarinnar eiga að hefjast snemma næsta haust.

Næsta mynd Vaughn sem kemur í bíó er The Internship, sem frumsýnd verður 6. júní nk.

Ferrell og McKay eru sem stendur að vinna við Anchorman 2: The Legend Continues, en frumsýning hennar er áætluð 20. desember nk.