Valið á Djúpinu kom ekki á óvart

Framlag Íslendinga til Óskarsverðlaunanna í ár, kvikmyndin Djúpið eftir Baltasar Kormák er komin á stuttlista níu erlendra kvikmynda sem eiga möguleika á að hreppa tilnefningu til Óskarsverðlauna þann 10. janúar nk. en verðlaunin sjálf verða veitt í febrúar.   Valið inn á stuttlistann stóð á milli 71 myndar í ár.

Í frétt Los Angeles Times segir að fátt hafi komið á óvart við val inn á stuttlistann.  Amour frá Austurríki hafi til dæmis unnið Gullpálmann á Cannes hátíðinni í vor, og franska myndin The Intouchables hafi slegið í gegn um allan heim. Þá hafi nokkrar myndanna níu tengsl við Hollywood, eins og til dæmis sé Mads Mikkelsen frá Danmörku orðinn þekktur Hollywood leikari, en hann leikur í myndinni A Royal Affair sem er á listanum. Einnig leiki Gael Garcia Bernal í myndinni No frá Síle og Lea Seydoux leiki í framlagi Sviss, Sister. Þá sé íslenski leikstjórinn Baltasar Kormákur á bakvið tökuvélina í Djúpinu, en hann sé nú þegar byrjaður að búa til Hollywood myndir.

Djúpið  er fyrsta íslenska kvikmyndin í tuttugu ár sem kemst þetta nálægt því að vera tilnefnd til Óskarsverðlauna,  en myndin Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson er eina íslenska myndin í fullri lengd sem tilnefnd hefur verið til Óskarsverðlaunanna.

Baltasar himinlifandi

Baltasar Kormákur sagðist í samtali við fréttastofu RÚV vera himinlifandi með að vera kominn þetta langt, en sagði einnig að enn væri þó langur vegur í  Óskarstilnefningu.

Hér er stuttlistinn í heild sinni:

Austurríki, Amour, leikstýrt af Michael Haneke.

Kanada, War Witch, leistýrt af Kim Nguyen

Síle, No, leikstýrt af Pablo Larrain

Danmörk, A Royal Affair, leikstýrt af Nikolaj Arcel

Frakkland, The Intouchables, leikstýrt af  Olivier Nakache og Eric Toledano

Ísland, Djúpið, leikstýrt af Baltasar Kormáki

Noregur, Kon-Tiki, leikstýrt af Joachim Ronning og Espen Sandberg.

Rúmenía, Beyond The Hills, leikstýrt af Cristian Mungiu

Sviss, Sister, leikstýrt af Ursula Meier

Á meðal mynda sem ekki komust inn á stuttlistann voru til dæmis The Hypnotist eftir Lasse Hallstrom frá Svíþjóð og Caesar Must Die frá Ítalíu og Barbara frá Þýskalandi.

Myndunum verður fækkað niður í fimm í janúar nk. og verður tilkynnt um hverjar verða tilnefndar þann 10. janúar.