Það er erfitt að meta það hversu spennt fólk er fyrir næstu Transformers-mynd því eins og önnur myndin í seríunni, sem bar undirheitið Revenge of the Fallen, græddi heldur betur mikið í fyrrasumar en viðtökur gagnrýnenda voru gríðarlega neikvæð og sama mætti segja um flesta áhorfendur.
Reyndar, ef mér skjátlast ekki, þá var Transformers 2 einhver mest hataða stórmynd síðasta árs. Sko, ef ég á að vera fullkomlega hreinskilinn þá hef ég aldrei skilið þetta endalausa diss sem hún hefur fengið, því persónulega gaf hún mér allt það sem ég vildi fá út úr mynd sem var jafn þroskaheft og hávær og hún var. Ég er líklegast eini maðurinn á landinu sem skemmti sér meira yfir henni heldur en nr. 1. Ojæja.
Allavega, svo ég komi mér aftur að því sem ég upphaflega byrjaði að tala um, þá er þriðja myndin í bígerð núna, eins og hefur komið skýrt fram, og aðstandendur eru búnir að opinbera undirheiti hennar.
TRANSFORMERS: THE DARK OF THE MOON kemur í kvikmyndahús núna næsta sumar og það vill svo skemmtilega til að aðalstjarna myndarinnar, Shia LaBeouf, segist lofa því að hún muni ekki sjúga eins og nr. 2 gerði. Ef þið skoðið þessa frétt, þá getið þið séð að hann er virkilega bjartsýnn fyrir þessari þriðju mynd og segir að hún sé best skrifuð af öllum þremur. Þetta mun vera lokamyndin í seríunni og samkvæmt Shia fer rosalegt púður í það að gera hana almennilega. Drengurinn er þekktur fyrir að vera hreinskilinn, enda var komment hans á Indiana Jones 4 (og TF2) mjög frægt, og talið er að Spielberg hafi ekkert verið rosalega sáttur með það.
Spennandi… eða… hvað?
T.V.




