Umfjöllun: The Butler (2013)

Myndin „The Butler“ er byggð á sögu „Eugene Allen“ sem starfaði í Hvíta húsinu á tímabilinu 1952 til 1986 og þjónaði sjö mismunandi forsetum. Við fáum að fylgjast með þessu tímabili með augum blökkumannsins og fjölskyldu hans sem takast á við það sem átti sér stað á þessum tíma hver á sinn hátt.

The Butler (2013)

Ég hafði gaman af myndinni og fannst hún mjög áhugaverð og skemmtilega uppsett. Ég kannast við flest af þessum sögulegu atvikum (eins og morðið á JFK), en myndin fjallar ekki um þau atvik sem slík, heldur um það hvernig þjónninn „Cecil“  tæklar þessi atvik.

Cecil Gaines“ er leikinn af Forest Whitaker (The Last King of Scotland) og fer hann vel með hlutverkið og nær manni alveg. Sagan er dálítið í „Forrest Gump“ stíl og er full af þekktum andlitum eins og Mariah Carey, Cuba Gooding Jr. , Lenny Kravitz, John Cusack, Robin Williams, Alan Rickman og Jane Fonda. „Gloria Gaines“ sem er eiginkona „Cecil“, er leikin af Oprah Winfrey og gerir það vel. Myndinni er leikstýrt af Lee Daniels sem hefur áður gert myndir eins og „Monster’s Ball„. Myndin er kannski í lengri kantinum, en ég var ekkert farinn að líta á klukkuna.

Ef þú hafðir gaman af myndinni „The Help“ þá er þetta mynd fyrir þig.
Í stuttu máli: Flottur leikur, áhugaverð og góð saga.

Ég gef „The Butler (2013)“ 7 af 10.