Tvær nýjar myndir slógu í gegn í miðasölunni í Bandaríkjunum um helgina. Önnur var teiknimyndin The Croods og hin var spennutryllirinn Olympus Has Fallen, en báðum gekk betur en spáð hafði verið.
The Croods var spáð tekjum upp á 44 milljónir Bandaríkjadala, sem hefði í raun orðið besta frumsýningarhelgi myndar það sem af er ári, en myndin gerði enn betur en það og þénaði 63,3 milljónir dala og tók toppsæti bandaríska aðsóknarlistans.
Í öðru sæti komu svo Gerard Butler, Aaron Eckhart og félagar í Olympus Has Fallen með 30,5 milljónir dala í tekjur í öðru sætinu, en sem fyrr sagði var það mun meira en menn höfðu þorað að vona.
Gamanmyndin Admission með Tina Fey og Paul Rudd náði hinsvegar ekki að vera með í partýinu og þénaði aðeins 6,4 milljónir dala, en myndin var rétt eins hinar tvær frumsýnd um helgina. Myndin var fimmta vinsælasta myndin um helgina í Bandaríkjunum, og náði ekki að komast upp fyrir Oz the Great and Powerful og The Call, sem báðar voru á sinni annarri viku í sýningum.
Árangur Olympus Has Fallen er besti árangur spennumyndar á árinu á frumsýningarhelgi og langbesti árangur myndar með Gerard Butler í aðahlutverki síðan hann gerði The Bounty Hunter árið 2010.
Hér fyrir neðan er listi tíu vinsælustu mynda í Bandaríkjunum nú um helgina:
The Croods, 44,7 milljónir dala.
Olympus Has Fallen, 30,5 milljónir dala.
Oz the Great and Powerful, 22 milljónir dala.
The Call, 8,7 milljónir dala.
Admission, 6,4 milljónir dala.
Spring Breakers, 5 milljónir dala.
The Incredible Burt Wonderstone, 4,3 milljónir dala.
Jack the Giant Slayer, 3 milljónir dala.
Identity Thief, 2,5 milljónir dala.
Snitch, 1,9 milljónir dala.