Nú á dögunum var haldin sérstök prufusýning í kvikmyndahúsi í Amsterdam, þar sem áhorfendur fengu meðal annars að sjá fjórar mínútur úr myndinni Top Gun þar sem var búið að breyta henni í þrívíddarmynd. Viðtökur voru býsna jákvæðar og er talið að á næsta ári fengi öll myndin bíóútgáfu ef leikstjórinn Tony Scott samþykkir breytinguna.
Það er fyrirtæki sem ber heitið Legend3D sem sér um þrívíddarbreytinguna á myndinni og þeir eru að vonast til þess að þetta verði upphafið að einhverju sem kemst vonandi í sterka tísku, þ.e. að færa fleiri klassíska titla yfir í þrívídd. Þetta kompaní sæi næstum því alfarið um fjármögnunina á þessari breytingu og þar af leiðandi fengi það stóran hluta af aðsóknarpeningunum.
Top Gun græddi yfir $350 milljónir á heimsvísu (og var gerð fyrir litlar $15 milljónir) og er ennþá í dag talin vera klassík þrátt fyrir að hafa aldrei fengið sérstaklega góða dóma. Myndin kom Tom Cruise og Val Kilmer á kortið, ásamt Don Simpson og Jerry Bruckheimer.
Til gamans má geta þá er reiknað með því að Titanic og Star Wars: The Phantom Menace verði gefnar út aftur á næsta ári í bíó.