Tölvuleikjamynd slær í gegn á Sundance

Heimildarmyndin Indie Game: The Movie fór mikinn á nýyfirstaðinni Sundance kvikmyndahátíð. Fjármögnun fyrir myndina hófst á vefsíðunni Kickstarter, en Kickstarter leyfir notendum að koma verkefnum sínum á framfæri og fá fjárstuðning frá áhugasömum fjárfestum.

Entertainment Weekly setti Indie Game: The Movie á 9.sæti yfir þær myndir sem beðið væri eftir með mestri eftirvæntingu á Sundance hátíðinni. Ljóst er að hypeið hefur staðið undir sér. Myndin hlaut verðlaun fyrir bestu klippingu á hátíðinni og hefur hlotið mikið hrós frá gagnrýnendum. Indie Game: The Movie fylgir lífi þriggja sjálfstæðra tölvuleikjaframleiðenda (höfundum Super Meat Boy, Fez og Braid) og sögunni í kringum útgáfu tölvuleikjanna, sem er vægast sagt áhugaverð.

Framleiðandinn Scott Rubin (til vinstri) tryggði sér réttinn að eftirleik myndarinnar á Sundance hátíðinni. Rubin hefur framleitt fjölmargar myndir í gegnum tíðina, þar á meðal No Country For Old Men, The Social Network, There Will Be Blood og The Truman Show. Það sem vekur mesta athygli er að Rubin hefur ákveðið að búa til sjónvarpsþætti eftir kvikmyndinni í stað framhaldsmyndar. Þættirnir munu verða 30 mínútna langir og sýndir á vegum sjónvarpsstöðvarinnar HBO, en HBO eru óhræddir við að taka áhættur í þáttagerð.

Þessar fréttir hafa hlotið misjafnar viðtökur frá nýtilkomnum aðdáendum myndarinnar sem og leikstjórum hennar, Lisanne Pajot og James Swirsky (til hægri). Pajot og Swirsky eru nú í viðræðum við Rubin og HBO um áætlaða þætti.

 

Það sem er kannski áhugaverðast hér er ferlið sem Indie Game: The Movie hefur fylgt. Myndin byrjaði staurblönk á vefsíðunni Kickstarter en fékk gríðarlega góðar viðtökur. Nú er myndin komin út og sjónvarpsþættir eftir myndinni eru í bígerð. Kickstarter hefur gert  sjálfstæða kvikmyndageiranum það auðveldara að fá fjárveitingu en áður.

Eins og gefur að skilja er ekki búið að taka neinar ákvarðanir varðandi dreifingu myndarinnar, enda er hún svo að segja nýkomin úr framleiðslu. Trailerinn má hins vegar nálgast hér fyrir neðan.