Tökur eru nú hafnar á nýrri íslenskri bíómynd, Gauragangi, eftir sögu Ólafs Hauks Símonarsonar í leikstjórn Gunnars Björns Guðmundssonar. Framleiðandi er Zik Zak. Stefnt er að því að frumsýna myndina næsta vetur.
Í tilkynningu frá framleiðendum kemur fram að sjaldan eða aldrei hafi verið haldnar eins umfangsmiklar leikprufur fyrir neina kvikmynd á Íslandi, eins og fyrir Gauragang. „Sjaldan eða aldrei hafa verið haldnar eins umfangsmiklar leikprufur fyrir kvikmynd á Íslandi því um 700 unglingar voru prófaðir í hlutverk fyrir Gauragang í áheyrnarprufum sem haldnar voru um allt land síðastliðið sumar. Það eru þau Alexander Briem og Hildur Berglind Arndal sem hrepptu aðalhlutverkin eftir langar og strangar prufur.
Alexander fer með hlutverk uppreisnarseggsins Orms Óðinssonar sem glímir við ástina og tilvistarkreppu unglingsáranna. Alexander er nýútskrifaður af leiklistarbraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur einnig vakið athygli með hljómsveit sinni Soundspell.
Hildur Berglind fer með hlutverki Lindu, draumadrottnigar Orms. Hildur hefur leikið í uppfærslum Fjölbrautaskólans í Garðabæ og komst nýverið inn í leiklistardeild Listaháskóla Íslands.
Leikstjóri myndarinnar Gunnar Björn Guðmundsson sló heldur betur í gegn með mynd sinni Astrópíu árið 2007 og leikstýrði einnig síðasta áramótaskaupi Rúv við góðar undirtektir.
Með önnur hlutverk í myndinni fara Steinn Ármann Magnússon, Gunnar Helgason, Björk Jakobsdóttir, Víkingur Kristjánsson, Þorsteinn Bachmann, Edda Arnljótsdóttir, Stefán Jónsson, Eygló Hilmarsdóttir, Atli Óskar Fjalarsson, Sigurbjartur Atlason, Auðunn Lúthersson o.fl.,“ segir í tilkynningu frá framleiðendum.
Fyrir áhugsasama þá fara fram tökur á fjöldaatriði í Fríkirkjunni í Reykjavík nú í hádeginu, föstudaginn 9. júlí.
Hér að neðan er plakat myndarinnar:


