Tökur á Teenage Mutant Ninja Turtles eiga að hefjast í apríl í New York, samkvæmt Production Weekly.
Þessi endurræsing á skjaldbökunum hefur verið á hálfgerðum skjaldbökuhraða því fyrst átti að frumsýna myndina á þessu ári og áttu tökur að hefjast síðasta haust. Vegna vandræðagangs með handritið var frumsýningunni verið frestað til 16. maí 2014.
Framleiðandinn Michael Bay kallaði einnig yfir sig reiði Turtles-aðdáenda þegar hann tilkynnti að skjaldbökurnar yrðu geimverur í nýju myndinni.
Þrjár Teenage Mutant Ninja Turtles-myndir voru gerðar á tíunda áratugnum við misjöfn viðbrögð gagnrýnenda.
Tölvuteiknuð skjaldbökumynd, TMNT, kom út árið 2007 og námu miðasölutekjur hennar um 54 milljónum dollara. Hún kostaði um 34 milljónir dollara í framleiðslu.